Haraldur Guðmundsson fæddist 7. mars 1922 í Tjarnarkoti á Stokkseyri. Hann lést 22.júlí 2014. Haraldur fluttist ungur með foreldrum sínum að Hólmi á Stokkseyri þar sem hann ólst upp. Foreldrar hans voru Jóhanna María Guðmundsdóttir og Guðmundur Vigfússon, systkini hans sem eru öll látin voru Victoría, Guðmunda, Steindór, Þuríður, Jóhann, Magnea og Gunnar, Haraldur var yngstur þeirra. Fyrri konan hans var Aldís Þórðardóttir en þau slitu samvistum, kjördóttir þeirra var Hugrún Selma sem lést 2005 og Þórunn Ágústa. Seinni kona hans var Halla Hafliðadóttir, fædd 1.maí 1924, dáin 5.sept. 2005, dætur þeirra eru Maríanna og Guðmunda.

Útför Haralds fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 31. júlí 2014, kl. 13.

Elsku pabbi minn, ég veit að nú ertu kominn til mömmu og þó að það hafi verið sárt að sjá á eftir þér veit ég að þér líður vel. Þegar ég sat hjá þér rétt fyrir andlátið með tárin í augunum og þú tókst eftir því en gast ekki tjáð þig, þá teygðir þú til mín hendurnar og faðmaðir mig að þér til að hugga mig. Þetta er mér dýrmæt minning sem ég geymi í hjarta mínu. Með þessum orðum vil ég kveðja þig: „Þú ert og verður alltaf besti pabbinn í öllum heiminum,“ en þetta sagði ég alltaf við þig þegar við vorum búin að fara með kvöldbænirnar saman áður en ég fór að sofa sem barn. Þessu hvíslaði ég að þér daginn áður en þú kvaddir þennan heim og ég veit að þú heyrðir í mér, því þú þrýstir hendina á mér. Guð geymi þig, elsku pabbi minn, ég gleymi þér aldrei, við vorum ekki bara faðir og dóttir heldur líka bestu vinir. Hvíl í friði.

Þín elskandi dóttir,

Guðmunda Haraldsdóttir.