Álag Á síðustu árum hefur umferð á þjóðvegum aukist jafnt og þétt.
Álag Á síðustu árum hefur umferð á þjóðvegum aukist jafnt og þétt. — Morgunblaðið/Ernir
Páll Fannar Einarsson pfe@mbl.is Mikið álag hefur verið í sumar á starfsmönnum hálendisvaktar Landsbjargar. Ferðamönnum fjölgar í sífellu á landinu og því fylgir aukning í óhöppum.

Páll Fannar Einarsson

pfe@mbl.is

Mikið álag hefur verið í sumar á starfsmönnum hálendisvaktar Landsbjargar. Ferðamönnum fjölgar í sífellu á landinu og því fylgir aukning í óhöppum. „Það er búið að vera óvenjumikið um vatna- og drullufestur í sumar enda er mikið í ám og víða blautt. Okkar tilfinning er sú að það sé meira um óhöpp þar sem fólk meiðir sig. Við hjá hálendisvaktinni erum ekki þau einu sem hafa orðið vör við það heldur einnig aðrar björgunarsveitir,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörg. Hann veltir því upp um leið hvort ákveðnir ferðamannastaðir séu einfaldlega sprungnir af álagi. „Ef stígurinn er t.a.m. troðfullur þá eru margir sem hafa ekki þolinmæði í að bíða og fara út fyrir og slasa sig,“ segir Jónas.

Á síðustu árum hefur umferð á þjóðvegum aukist jafnt og þétt en spurður hvort hann búist við meira álagi um verslunarmannahelgina miðað við aðrar helgar, segir Jónas: „Sumarið er eiginlega orðið ein stór verslunarmannahelgi. Tímabilið fer af stað af fullum krafti í byrjun júní og stendur yfir út allan ágúst.“