Grafarholt Blómstrandi byggð og litríkt mannlíf. Íbúarnir í dag eru um 5.000.
Grafarholt Blómstrandi byggð og litríkt mannlíf. Íbúarnir í dag eru um 5.000. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hverfishátíð Grafarholtsbúa í Reykjavík, Í holtinu heima, verður haldin 16. ágúst næstkomandi. Dagskráin er í mótun en ætlunin er að halda markað í Leirdal, eins og gert var í fyrra.

Hverfishátíð Grafarholtsbúa í Reykjavík, Í holtinu heima, verður haldin 16. ágúst næstkomandi. Dagskráin er í mótun en ætlunin er að halda markað í Leirdal, eins og gert var í fyrra. Nú er tími til að taka til í geymslunum, koma með handverkið, drífa sig í sultugerð eða baka fyrir fjáröflun, svo eitthvað sé nefnt. Búist er við góðri þátttöku á markaðnum, líkt og í fyrra, en skrá þarf sig á netfangið hproppe@gmail.com. Hugmyndin er að hafa svokalla skottsölu þannig að áhugasamir geti notað skott bíla sinna sem söluborð eins og víða er raunin í dag.

Í fyrra var einnig sá háttur hafður á að farið var í leiki á knattspyrnuflötinni í Leirdal. Þar voru bláklæddir Framarar áberandi, en málum í dag er svo fyrir komið að Fram er íþróttafélag þessa hverfis og hefur aðsetur í Úlfarsárdal svo og Safamýri. Þá var í fyrra ýmiss konar sprell í dalnum, en allt þótti þetta til að bæta mannlífið í Grafarholti, sem er eitt nýjasta hverfi borgarinnar.