Öflugir Á meðal leikmanna Esju eru, f.v., þeir Egill Þormóðsson, Hjörtur Geir Björnsson, Gunnar Guðmundsson, Þórhallur Viðarsson og Ólafur Hrafn Björnsson.
Öflugir Á meðal leikmanna Esju eru, f.v., þeir Egill Þormóðsson, Hjörtur Geir Björnsson, Gunnar Guðmundsson, Þórhallur Viðarsson og Ólafur Hrafn Björnsson. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íshokkí Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Ísknattleiksfélagið Esja mun tefla fram liði í íshokkí karla í vetur. Þar með bætist fjórða félagið við í deildina en fyrir eru þar SA, SR og Björninn. Og Esjumenn ætla sér meira en bara að vera með.

Íshokkí

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Ísknattleiksfélagið Esja mun tefla fram liði í íshokkí karla í vetur. Þar með bætist fjórða félagið við í deildina en fyrir eru þar SA, SR og Björninn. Og Esjumenn ætla sér meira en bara að vera með. Liðið verður m.a. skipað öflugum landsliðsmönnum og ætlunin er að sækja liðsstyrk út fyrir landsteinana sömuleiðis. Gauti Þormóðsson mun þjálfa liðið en Gunnar Viðar Árnason er eigandi hins nýstofnaða félags sem er þó undir hatti Ungmennafélags Kjalarness.

„Markmiðið er bara að reyna að stækka íþróttina. Ég hóaði nokkrum aðilum saman til að reyna að gera þetta og við höfum unnið að því síðustu tvö ár,“ sagði Gunnar Viðar við Morgunblaðið.

„Mín persónulega skoðun er að ákveðin stöðnun hafi átt sér stað í íþróttinni, það eru jafnmargir sem hætta og byrja þannig að það verður aldrei nein stækkun. Við þurfum auðvitað fleiri skautahallir og erum bundnir af því. Það var uppi á borði fyrir hrun að fjölga þeim en það hefur allt verið sett til hliðar. Við viljum fleiri hallir og fleiri félög enda verður það þreytt til lengdar að vera bara að spila við tvö lið og fá alltaf gull, silfur eða brons,“ sagði Gunnar Viðar.

Kjalnesingar tóku vel í hugmyndina

Í ljósi þess að aðeins tvær skautahallir eru í Reykjavík er eitt helsta vandamál hins nýja félags að fá úthlutaðan tíma til æfinga. ÍBR sér um að úthluta tímum í Skautahöllinni í Laugardal, þar sem Esja mun hafa bækistöðvar, og með því að leita til Kjalnesinga öðluðust forráðamenn félagsins ríkari rétt til æfingatíma.

„Við erum sjálfstæð deild innan Ungmennafélagsins Kjalarness og fögnum því auðvitað hvað fólkið á Kjalarnesi tók vel í þetta hjá okkur. Það var nauðsynlegt að vera í félagi sem tilheyrir Reykjavíkurborg upp á að geta fengið tíma í Skautahöllinni,“ sagði Gunnar Viðar.

„Við skiljum alveg að það sé erfitt fyrir okkur að fá tíma til að byrja með, og viljum alls ekki skemma fyrir öðrum. Þess vegna erum við reiðubúnir að fórna okkur og æfa bara kl. hálfellefu á kvöldin, sem er auðvitað ekkert æðislegt. En draumurinn er svo að geta byrjað með barnastarf strax á næsta ári. Það er planið en á meðan við fáum ekki fleiri tíma í höllinni er lítið hægt að gera,“ sagði Gunnar Viðar.

Eins og áður segir hafa Esjumenn sett saman ansi öflugt lið. Á meðal leikmanna má nefna Róbert Frey Pálsson og Gunnar Guðmundsson, og bræðurna Ólaf Hrafn og Hjört Björnssyni, en allir fjórir koma úr Birninum. Allir nema Hjörtur voru í landsliðinu á HM í Serbíu í vor. Þá er Pétur Maack, landsliðsmaður og lykilmaður SR-inga, einnig kominn sem og Egill Þormóðsson, bróðir þjálfarans.

„Við höfum þurft að hóa saman mönnum úr öðrum félögum og erum komnir með ágætlega sterkt lið. Það eru nokkrir leikmenn þarna sem voru hættir, höfðu kannski misst áhugann og fannst þetta ekki skemmtilegt lengur en taka núna fram kylfuna aftur og vilja taka þátt í þessu. Ég get til dæmis nefnt Þorstein Björnsson, fyrrverandi landsliðsmann, sem er að snúa aftur. Það er mjög jákvætt,“ sagði Gunnar Viðar.

Krafa um úrslitakeppni

„Það er ekki orðið ljóst hvað verður með erlenda leikmenn en það er nánast öruggt að við fáum 1-2 að utan. Það eru ekki miklir peningar til í þessu og við erum auðvitað bundnir af því hvaða styrki við fáum,“ bætti hann við, og stefnan er sett hátt strax á fyrsta vetri.

„Krafan er að komast í úrslitakeppnina. Þetta er sterkt lið, góðir strákar og mikil reynsla í hópnum. Það er enginn yngri en 20 ára í þessum 16-20 manna hóp sem er kominn. Skautafélag Akureyrar hefur sýnt það hvað reynslan er mikilvæg í öllum þessum titlum sem það hefur tekið og núna er komin mikil reynsla í nýtt lið. Mér finnst ekki spurning að við getum spilað um Íslandsmeistaratitilinn. Við erum að gera þetta af fullri alvöru, það eru allir svo spenntir og margir góðir vinir þarna sem vilja ná langt saman. Þeir eru margir hverjir gæjar sem hafa verið að kljást á ísnum en vinna núna saman. Við viljum stækka íshokkíið og gera þetta skemmtilegra,“ sagði Gunnar Viðar.

Esja
» Er nýstofnað íshokkífélag sem verður eitt fjögurra sem tefla fram liði í íslensku karladeildinni í vetur.
» Hópur núverandi og fyrrverandi landsliðsmanna mun leika fyrir liðið, menn á borð við Pétur Maack, Ólaf Hrafn Björnsson, Róbert Frey Pálsson og Gunnar Guðmundsson.