Pillur Yfir 200 lyf eru á biðlistum hjá lyfjadreifingarfyrirtækjum.
Pillur Yfir 200 lyf eru á biðlistum hjá lyfjadreifingarfyrirtækjum. — Morgunblaðið/Sverrir
Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is Yfir 200 lyf eru á biðlistum hjá lyfjadreifingarfyrirtækjum, þar af 156 hjá Distica og 61 hjá Parlogis. Á listunum hjá báðum dreifiaðilum má sjá að sum lyfjanna hafa verið í bið síðan á seinasta ári.

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

Yfir 200 lyf eru á biðlistum hjá lyfjadreifingarfyrirtækjum, þar af 156 hjá Distica og 61 hjá Parlogis. Á listunum hjá báðum dreifiaðilum má sjá að sum lyfjanna hafa verið í bið síðan á seinasta ári. „Biðlistinn er mjög langur en það er forgangsverkefni hjá okkur alla daga að lyf séu fáanleg. Það kemur þó alltaf upp þessi staða að lyf fara á bið og ástæðurnar eru ótal margar,“ segir Þórdís Ólafsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Actavis á Íslandi.

Þórdís segir ótalmargt geta komið uppá, og sjaldan sé einhver ein orsök. „Í næstsíðustu viku lenti til dæmis einn gámur í brotsjó og það flæddi inn í hann sjór svo öll lyf skemmdust,“ segir hún. Þórdís segir lyf á biðlista núna vera fleiri en oft hefur verið, og eins og áður sagði eru lyf á listunum sem hafa verið þar síðan á seinasta ári. „Stundum koma upp framleiðsluerfiðleikar og þá eru lyf á biðlista í lengri tíma,“ segir Þórdís spurð um þetta.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur blóðfitulækkandi lyfið Atacor, í 40 mg styrkleika, ekki verið fáanlegt í rúman mánuð. Þórdís segir ástæðuna fyrir þessu margþætta. „Þetta tiltekna lyf hefur þó verið fáanlegt í öðrum styrkleikum svo það hefur ekki verið alveg ófáanlegt á landinu,“ segir hún. „Það ætti að koma ný sending af þessu lyfi í næstu viku. Við gerum að minnsta kosti ráð fyrir því.“

Samheitalyfjafyrirtækið Lyfis markaðssetti samheitalyfið Atorvaratio 1. júlí síðastliðinn og hefur það komið í stað Atacor síðan. „Það hefur áður verið skortur á fleiri styrkleikum á Atacor en með tilkomu Atorvaratio hefur þessi skortur minnkað mikið,“ segir Hákon Steinsson, lyfjafræðingur hjá Lyfis. „Það getur vissulega verið að ákveðnir einstaklingar kjósi að nota það ekki en það kemur alveg í staðinn fyrir Atacor,“ segir hann. Hákon segir apótekum bera skylda til að bjóða Atorvaratio í stað Atacor, sérstaklega þar sem skortur er á því, en einnig vegna verðmunar. Að hans sögn er lyfið Atorvaratio 8% ódýrara en Atacor.