Aðalheiður les bæði fræðirit og fagurbókmenntir, því góðar hugmyndir geta komið úr ýmsum áttum.
Aðalheiður les bæði fræðirit og fagurbókmenntir, því góðar hugmyndir geta komið úr ýmsum áttum. — Morgunblaðið/Kristinn
Landsmenn þurfa sitt kaffi og má Aðalheiður Héðinsdóttir því alls ekki klikka. Stóla ótalmargir kaffiunnendur á að komast í gegnum daginn með bolla frá Kaffitári. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Landsmenn þurfa sitt kaffi og má Aðalheiður Héðinsdóttir því alls ekki klikka. Stóla ótalmargir kaffiunnendur á að komast í gegnum daginn með bolla frá Kaffitári.

Hverjar eru stærstu

áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Það er sama gamla góða verkið; gleðja kúnnana og gera betur og betur. Allur rekstrarkostnaður hefur aukist verulega undanfarið, þar á meðal kaffiverð, og því þarf að vanda sig og skoða vel tækifærin í hverju verki. Eftir aðhald undanfarin ára er komið að viðhaldi og auknum fjárfestingum sem þarf að forgangsraða.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Ég fór á kaffiráðstefnu í Seattle með börnunum mínum sem öll vinna við reksturinn. Það var gaman að sjá hvernig þau mátu hlutina og hvað það var sem þeim fannst áhugavert. Unga fólkið hefur aðra sýn sem er nauðsynleg fyrirtæki eins og okkar sem þarf að tolla í tískunni og endurnýjast með nýjum viðskiptavinum og nýrri tækni.

Eins var mjög áhugavert að hitta kollega og vini frá Milwaukee sem eiga bakarí og kaffibrennslu eins og við og bera saman bækur og fræðast hvert af öðru.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég get ekki nefnt neina ákveðna bók sem hefur haft áhrif á mig. Þegar maður les mikið koma áhrifin héðan og þaðan. Mér finnst alltaf það sem ég er að lesa hverju sinni mjög merkilegt og reyni að máta það inn í okkar fyrirtæki. Ég tek mark á rannsóknum sem gerðar hafa verið um stjórnun og rekstur og reyni að læra af þeim.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Ætli litla sviðið í leikhúsi ætti ekki frekar við en kvikmynd, og þá dettur mér í hug að hún Jana María Guðmundsdóttir leikkona mundi leika mig. Hún er svo skemmtileg og hress og svo erum við pínulítið líkar enda frænkur.

Hernig heldurðu við

þekkingu þinni?

Ég les fræðibækur og eins bara skemmtilegar bækur því maður veit aldrei hvað það er sem skiptir máli og hvaðan hugmyndirnar koma. Ég fer á ráðstefnur og fundi. Líklega kemur þó mikið af þekkingunni frá fólki sem maður umgengst og hittir. Ég er forvitin um önnur fyrirtæki og þá helst stjórnun og rekstur og geri mér far um að spyrja kollegana um þeirra sigra og áskoranir.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, ég held að ég hugsi sæmilega um líkaman og heilsuna. Ég borða hollan og góðan mat. Kannski helst til mikið af honum.

Geri margt skemmtilegt í hreyfingu en ekkert mjög alvarlega þó. Hleyp á sumrin og stunda smá golf, hjóla og geng á fjöll, slæ blettinn með gamaldags sláttuvél svo handleggirnir fái smápúl. Svo er ég í jóga, sem er algjör snilld fyrir líkama og sál.

Ef þú þyrftir að finna þér

nýjan starfa, hvað væri draumastarfið?

Ég mundi líklega fara aftur í upprunann og fara að kenna börnum og nú mundi ég vilja kenna börnum að elda mat. Er byrjuð að kenna tæplega tveggja ára ömmustrák og bind vonir við að mér takist sæmilega upp og að hann muni elda og baka fyrir okkur áður en langt um líður.