Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Eftir Sigurð Jónsson: "Fáni CocaCola er miklu algengari en þjóðfáninn."

Heimskulega spurt eða hvað? Þegar farið er um höfuðborgarsvæðið eða um þjóðgarða okkar sjást yfirleitt ekki aðrir fánar en CocaCola-fánar. Á Alþingi Íslendinga ganga menn svo sem kunnugt er reglulega undir danska krúnu til viðveru í húsinu. Hvergi í sk. lýðfrjálsu landi þekkist að valdatákn fyrrverandi nýlenduherra fái að vera uppi á þingbyggingum. Að auki er þjóðfáni undantekningalaust við hún á slíkum byggingum, – nema á Íslandi.

Á Þingvöllum, sem taldir eru helgasti staður þjóðarinnar, er ekki flaggað nema um helgar og við sérstök tækifæri. Sama gildir um aðra þjóðgarða. Fáni CocaCola er miklu algengari en þjóðfáninn. Reyndar eru a.m.k. sumir þessir þjóðgarðar slík sorgarsaga að manni verður orðfall við skoðun þeirra. Ófullnægjandi umhirða og gæsla auk þess sem þjónusta er afar mismunandi stuðlar sannarlega ekki að virðingu ferðalanga fyrir þeim.

Í lögum um þjóðfánann eru m.a. taldir upp 12 lögskipaðir fánadagar og skal fáninn þá daga dreginn á stöng á öllum húsum opinberra stofnana auk þess sem almenningur er hvattur til að flagga þessa daga. Opinberar stofnanir hundsa þetta upp til hópa og eru sumir stjórnendur þeirra svo óforskammaðir að bera við fánastangaleysi og/eða aukakostnaði. Það er enginn afsláttur gefinn í fánalögunum fremur en ýmsum öðrum lögum þannig að þetta eru ógildar afsakanir.

Þjóðfáninn er hluti af ímynd Íslands og það er ætíð verið að reyna að selja ferðafólki Ísland. Þurfum við e.t.v. að fá einhvern frá CocaCola til að leggja okkur lið við að leiðrétta kúrsinn?

Höfundur er áhugamaður um aukna notkun þjóðfánans.