Ketill Arnar Hannesson fæddist 4. desember 1937. Hann lést 3. júlí 2014. Útför Ketils Arnars fór fram 9. júlí 2014.

Arnar var yngsti bróðir móður minnar sem var elst sjö systkina frá Arnkötlustöðum, Hulda hét hún. Nafnið fékk hann frá bænum og ég mitt frá foreldrum þeirra, Hannesi og Steinunni. Systir mín Sigga og ég vorum fyrstu barnabörnin og gættum við bæjarins með Eddu frænku þegar amma og afi héldu til Skotlands til að vera viðstödd útskrift Arnars frá Edinborgarháskóla. Síðan eru ár og dagar. Ekki hitti ég frænda minn Arnar oft enda lengst af í útlöndum en það var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Síðast sáumst við í desember. Arnar var áræðinn og hraustur, kvikur í hreyfingum með bergmálaða rödd, kíminn og skemmtilegur drengur. Það getur vel verið að árin safnist saman og að kroppurinn sé með vesen en hann beit bara í skjöldinn, hljóp heilu og hálfu maraþonin, kleif fjöll og hló þessum dásamlega hása hlátri. Alltaf jafn strákslegur, viðkvæmur og klár. Ég votta Ástu, börnum þeirra og öllum nánustu mína dýpstu samúð.

Hanna Steinunn.