[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikill mannfjöldi hefur safnast saman í góðviðrinu í Reykjavík undanfarin kvöld. Í gærkvöldi, þegar meðfylgjandi myndir voru teknar, fylltu innlendir jafnt sem erlendir veitingahúsagestir flesta veitingastaði í miðborginni.

Mikill mannfjöldi hefur safnast saman í góðviðrinu í Reykjavík undanfarin kvöld. Í gærkvöldi, þegar meðfylgjandi myndir voru teknar, fylltu innlendir jafnt sem erlendir veitingahúsagestir flesta veitingastaði í miðborginni. „Það er „pakkað“ á öllum stöðum og heldur betur líf í bænum,“ segir Davíð Yngvason, veitingastjóri hjá Kaffi París.

Auk þess sem margir sóttu veitingastaðina valdi fjöldi manns að sitja á Austurvelli með teppi til að njóta veðurblíðunnar, margir með svaladrykk við hönd. „Ef ég væri útlendingur myndi ég halda að það væri einhver hátíð í gangi,“ segir Davíð.

Vala Jónsdóttir hjá versluninni Geysi á Skólavörðustíg segir að mikið sé að gera á kvöldin þegar veður er gott. „Við erum búin að selja sorglega mikið af stígvélum í sumar,“ segir Vala í gamansömum tón og vísar þar með til rigningarinnar sem einkennt hefur sumarið á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir þó að færri kaupi hlífðarfatnað í góðu veðri. „Það er gaman að finna fyrir þessu mikla mannlífi í bænum og útlendingar setja skemmtilegan svip á miðborgina,“ segir Vala.

vidar@mbl.is