Vilhjálmur A. Kjartansson: "Föstudaginn 8. október 1976 sýndi Ríkissjónvarpið kvikmyndina „Í greipum óttans“ eftir Elia Kazan. Myndin væri ekki frásögur færandi ef ekki væri fyrir þær sakir að hún var eina skemmtiefni stofnunarinnar það kvöldið."

Föstudaginn 8. október 1976 sýndi Ríkissjónvarpið kvikmyndina „Í greipum óttans“ eftir Elia Kazan. Myndin væri ekki frásögur færandi ef ekki væri fyrir þær sakir að hún var eina skemmtiefni stofnunarinnar það kvöldið. Einhverjum hefur eflaust þótt það feikinóg að bjóða landsmönnum upp á eina kvikmynd í vikulok. Ætli þær raddir hafi ekki líka heyrst sem vöruðu við skaðsemi of mikillar afþreyingar fyrir heilsu fólks? Á þessum tíma þurftu barnfóstrur samfélagsins ekki að hafa áhyggjur af einkareknum útvarps- eða sjónvarpsstöðvum, þær voru hreinlega bannaðar. Bjórinn var bannaður og annað hvert fyrirtæki var ríkisrekið eða tryggði tilvist sína í skjóli hafta. Mikið ofboðslega hefur lífið verið ljúft hjá þeim sem hafa þörf fyrir það að segja öðrum til um það hvernig á að haga lífi sínu.

Í dag er líf samfélagsfóstrunnar orðið öllu erfiðara, þótt dagskrá ríkisstofnunarinnar í Efstaleiti hafi ekki batnað mikið þrátt fyrir samanburð og samkeppni við einkareknar sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Bjórinn flæðir úr krönum skemmtistaða landsins og afgreiðslutími verslana er ekki lengur háður duttlungum stjórnmálamanna. Frjálsara og frjálslyndara samfélag er alls ekki jafn slæmt og varað hafði verið við. Engum þykir það eðlilegt að treysta á hugulsemi ríkisstofnunar til að hafa ofan af fyrir sér á föstudagskvöldi og verslunarferð á miðnætti er jafn sjálfsögð og kalda vatnið í krananum.

Engu að síður halda óttaslegnar samfélagsfóstrur fast í gömul gildi sín og berjast gegn frelsi og framförum samfélagsins. Framsóknarmaddaman varaði nýlega við erlendum verslunarkeðjum á Íslandi. Kjöt sem tugir milljóna manna neyta sér að meinalausu í útlöndum er víst Íslendingum stórhættulegt. Frjáls samskipti einstaklinga, t.d. skipti á áfengi fyrir fjármuni, teljast ekki örugg nema annar aðilinn sé ríkisstarfsmaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Aðrir óttaslegnir einstaklingar hræðast sambönd fólks af sama kyni og sumir eru hræddir við útlendinga. Þá má heldur ekki gleyma „góða“ fólkinu sem vill skylduáskrift að ríkisstofnuninni RÚV. Réttlæting þess er eitthvað á þá leið að því finnst eitthvað um stofnunina sem er öðrum hollt, jafnvel samfélaginu öllu. Þannig réttlæta allar samfélagsfóstrur afstöðu sína, alveg sama hver hún er. Í grunninn er því enginn munur á þeim sem vilja banna sölu áfengis í verslunum og banna hjónabönd samkynhneigðra og þeim sem vilja banna fólki að velja hvar það kaupir sjónvarpsáskrift sína, eða hvort það kaupir hana yfirhöfuð. Allt þetta fólk er hrætt við framarir og frelsi.

Líkt og með hjónaband fólks af sama kyni, afnám bjórbanns og frjálsan afgreiðslutíma verslana myndi samfélagið taka stórt skref fram á við ef stjórnvöld hættu að hlusta á samfélagsfóstrurnar og leyfðu frjálsa sölu á áfengi, afnæmu gjaldeyrishöft, opnuðu fyrir verslun með erlendar landbúnaðavörur, seldu eða legðu niður RÚV og leyfðu fólki yfirhöfuð að taka ákvarðanir um sitt eigið líf.

vilhjalmur@mbl.is

Vilhjálmur A. Kjartansson

Höf.: Vilhjálmur A. Kjartansson