[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Eyjum Júlíus G. Ingason sport@mbl.is KR er komið í úrslit Borgunarbikarsins eftir stórsigur á ÍBV í Eyjum í gær, 5:2.

Í Eyjum

Júlíus G. Ingason

sport@mbl.is

KR er komið í úrslit Borgunarbikarsins eftir stórsigur á ÍBV í Eyjum í gær, 5:2. Sigur KR-inga var verðskuldaður eins og lokatölurnar gefa til kynna enda komust KR-ingar fjórum mörkum yfir áður en Eyjamenn minnkuðu muninn. Eyjamenn voru samt sterkari í fyrri hálfleik en nýttu ekki færin. KR-ingar frestuðu þar með Þjóðhátíðinni um einn dag. Hún hefst nú eins og vanalega á föstudegi en ekki með sigri í bikarleik á fimmtudegi eins og Eyjamenn vonuðust til. Og það sem verra er, Eyjamenn eiga nú enga von um að ná Evrópusæti, sem var markmið liðsins fyrir sumarið.

Það var augljóst að mikið var undir í leiknum í gær enda voru áhorfendur farnir að tínast á völlinn 40 mínútum fyrir leik, eitthvað sem ekki hefur gerst áður í Eyjum í sumar. Eins og áður sagði voru Eyjamenn sterkari í fyrri hálfleik enda fengu þeir nokkur úrvalsfæri. Bestu tvö færin fékk markahrókurinn Jonathan Glenn en hann skallaði yfir og Sindri Snær Jensson varði vel frá honum í síðara skiptið. Sindri Snær leysti Stefán Loga Magnússon af hólmi í markinu og stóð sig vel en Stefán Logi tók út leikbann.

Eyjamenn hugsa Kjartani Henry Finnbogasyni, framherja KR, eflaust þegjandi þörfina enda hefur hann verið iðinn við kolann í bikarleikjum á Hásteinsvelli. Þannig skoraði hann eina mark KR-inga í 1:0 sigri í bikarnum gegn ÍBV 2010 og svo tvö mörk í 3:0 sigri KR í fyrra. Kjartan bætti tveimur mörkum við í gær. Síðara markið var af dýrari gerðinni, var reyndar alveg rándýrt en hann klippti boltann á lofti í þröngu færi og negldi boltann inn við fjærstöng. Kjartan var svo farinn að kýta við leikmenn ÍBV og gerði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, það eina rétta í stöðunni þegar hann skipti markahróknum af velli fimm mínútum eftir síðara mark hans.

Einhver hiti var í stuðningsmönnum ÍBV en þeir létu Kjartan Henry heyra það reglulega í síðari hálfleik. Það varð til þess að Gunnar Jarl Jónsson, dómari leiksins, gerði stutt hlé á leiknum til að koma þeim skilaboðum til áhorfenda að láta af fordómum og styðja frekar sitt lið. Vissulega rétt að betra sé að styðja sitt lið, en þeim sem þetta skrifar finnst það fullmikil viðkvæmni að stöðva leik af því að nokkrir svartir sauðir í stúkunni kalla leikmann andstæðingsins aumingja í hita leiksins. Vissulega ekki fallegt en fullorðnir karlmenn ættu að þola það og óþarfi að gera stórmál úr því.

0:1 Kjartan Henry Finnbogason 31. skoraði af stuttu færi.

0:2 Baldur Sigurðsson 45. fékk boltann eftir skot Óskars og skoraði af stuttu færi.

1:2 Jonathan Glenn 46. skoraði úr teignum eftir skalla Gunnars.

1:3 Kjartan Henry Finnbogason , 65. klippti boltann á lofti úr þröngu færi.

1:4 Gonzalo Balbi 76. fylgdi eftir skalla Óskars Arnar.

1:5 Óskar Örn Hauksson 84. lék á Abel og skoraði.

2:5 Andri Ólafsson 86. skallaði að marki, Sindri varði en Andri fylgdi eftir og skoraði.

Gul spjöld:

Þórarinn Ingi (ÍBV), 33. (brot), Grétar (KR), 55. (brot), Brynjar (ÍBV), 68. (brot), Kjartan (KR), 68. (brot), Óskar (KR), 78. (brot), Andri (ÍBV), 90. (brot).

ÍBV – KR 2:5

Hásteinsvöllur, Borgunarbikar karla, undanúrslit, fimmtudag 31. júlí 2014.

Skilyrði : Hægur vindur á annað markið, skýjað en þurrt.

Skot : ÍBV 13 (5) – KR 15 (12)

Horn : ÍBV 2 – KR 5.

ÍBV : (4-3-3) Mark : Abel Dhaira. Vörn : Jökull I. Elísabetarson, Brynjar Gauti Guðjónsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Matt Garner. Miðja : Arnar Bragi Bergsson (Andri Ólafsson 77.), Gunnar Þorsteinsson (Jón Ingason 87.), Þórarinn Ingi Valdimarsson. Sókn : Dean Martin (Atli Fannar Jónsson 64.), Jonathan Glenn, Víðir Þorvarðarson.

KR : (4-3-3) Mark : Sindri Snær Jensson. Vörn : Haukur Heiðar Hauksson, Grétar S. Sigurðarson, Aron Bjarki Jósepsson, Gunnar Þór Gunnarsson. Miðja : Egill Jónsson (Atli Sigurjónsson 87.), Baldur Sigurðsson, Jónas G. Sævarsson (Almarr Ormarsson 83.). Sókn : Óskar Örn Hauksson, Gary Martin, Kjartan Henry Finnbogason (Gonzalo Balbi 70.).

Dómari : Gunnar Jarl Jónsson - 6.

Áhorfendur : 1303.