Úr leik Rúna Sif Stefánsdóttir á ferðinni í leik gegn sínu gamla liði Fylki.
Úr leik Rúna Sif Stefánsdóttir á ferðinni í leik gegn sínu gamla liði Fylki. — Morgunblaðið/Ómar
Rúna Sif Stefánsdóttir, miðjumaður Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu, leikur hugsanlega ekki meira með Garðabæjarliðinu á þessu tímabili. Hún fótbrotnaði um síðustu helgi og verður frá keppni næstu 4-6 vikurnar hið minnsta.

Rúna Sif Stefánsdóttir, miðjumaður Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu, leikur hugsanlega ekki meira með Garðabæjarliðinu á þessu tímabili. Hún fótbrotnaði um síðustu helgi og verður frá keppni næstu 4-6 vikurnar hið minnsta. Hún gæti samt mögulega náð síðustu leikjum Pepsi-deildarinnar og leikjunum í Meistaradeildinni í haust.

„Þetta var allt hálfklaufalegt. Við vorum í fyrirgjafakeppni á æfingu og mér tókst einhvern veginn að misstíga mig, detta yfir markvörðinn og fótbrjóta mig. Ég var bara algjör klaufi,“ sagði Rúna Sif, nokkuð létt í bragði við Morgunblaðið í gær.

„Þetta var fyrsta beinið sem brotnar hjá mér og er maður nokkuð fótboltamaður fyrr en maður brýtur eitt bein?“ sagði Rúna létt. „Þetta var samt auðvitað mikið sjokk og alveg ógeðslega vont, en þetta er fínt brot ef svo má segja, og ég þarf enga aðgerð eða slíkt. Ég ætla að vera mætt sem fyrst aftur út á völlinn,“ sagði Rúna sem lagði upp flest mörk allra leikmanna Pepsi-deildarinnar á síðasta ári þegar hún átti 16 stoðsendingar fyrir Stjörnuna.

Þá er ljóst að Meagan Kelly spilar ekki meira með Stjörnunni. Hún meiddist á hné, fór í aðgerð og kemur ekki aftur til liðsins. Stjarnan hefur hinsvegar fengið tvo fyrrverandi leikmenn aftur í sínar raðir. Björk Gunnarsdóttir, sem hefur leikið með Breiðabliki og Val undanfarin ár en ekkert á þessu ári, er komin í Stjörnuna, sem og Inga Birna Friðjónsdóttir sem hefur dvalið í Danmörku og spilaði síðast með liðinu 2012.

Ennfremur er Danka Podovac að komast í gang á ný. Hún slasaðist í landsleik með Serbíu áður en tímabilið hófst í vor og spilaði sinn fyrsta leik á þriðjudagskvöldið þegar hún kom inn á í sigri Stjörnunnar á ÍBV. vs@mbl.is/sindris@mbl.is