Síld Skotar eru ósáttir við tillögu um afléttingu viðskiptabanns ESB.
Síld Skotar eru ósáttir við tillögu um afléttingu viðskiptabanns ESB. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Samtök skoskra uppsjávarsjómanna eru óhress með tillögu þess efnis að viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gegn Færeyjum verði aflétt.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Samtök skoskra uppsjávarsjómanna eru óhress með tillögu þess efnis að viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gegn Færeyjum verði aflétt. Krefjast samtökin þess að aðildarríki sambandsins hafni tillögunni með öllu en Evrópusambandið lagði í fyrra viðskiptaþvinganir á Færeyinga eftir að þeir settu sér einhliða kvóta í sameiginlegum síldarstofni í Norðaustur-Atlantshafi.

Fyrr á þessu ári náðu færeysk stjórnvöld og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samkomulagi um að ljúka deilum sínum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Settu Færeyingar sér á sama tíma einhliða síldarkvóta upp á 40.000 tonn en samkvæmt samningum strandríkjanna um skiptingu heildarafla ber þeim hins vegar að veiða tæplega 22.000 tonn af síld.

ESB skortir heimildir

„Okkar afstaða er sú að þessar viðskiptaþvinganir séu ákaflega óeðlileg aðgerð af hálfu Evrópusambandsins. Einnig þótti okkur mjög einkennilegt að Evrópusambandið skyldi, upp á sitt eindæmi, taka upp á því að gera samkomulag við Færeyjar um þeirra hlut í síldinni án þess að ræða það við önnur ríki sem aðild eiga að samkomulaginu,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, og bendir á að í haust verður haldinn fundur þar sem veiði næsta árs verður ákveðin. „Á þeim fundi verður eflaust tekist á um þetta,“ segir hann.

Spurður hvort hann telji Evrópusambandið hafa heimild til að beita áðurnefndum þvingunum kveður Kolbeinn nei við.

„Við teljum að Evrópusambandið hafi engar þjóðréttarlegar heimildir til að beita þessum þvingunum og þess vegna getum við ekki stutt þær að neinu marki. Við erum á móti viðskiptaþvingunum sem koma í veg fyrir að strandríki geti iðkað sinn rétt en einnig erum við alfarið á móti því að Færeyingar veiði umfram þann hlut sem þeir hafa samkvæmt samningnum.“