Reykjavíkurhöfn Farþegaskipið Andrea siglir af stað úr höfninni. Ferðamenn geta farið í ýmiss konar ferðir frá höfninni. Erlendir ferðamenn eru í miklum meirihluta en Íslendingar sækja þó mikið í sjóstangaveiði.
Reykjavíkurhöfn Farþegaskipið Andrea siglir af stað úr höfninni. Ferðamenn geta farið í ýmiss konar ferðir frá höfninni. Erlendir ferðamenn eru í miklum meirihluta en Íslendingar sækja þó mikið í sjóstangaveiði. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öll heimsins tungumál má heyra á Gömlu höfninni í Reykjavík enda hundruð erlendra ferðamanna sem leggja leið sína þangað á hverjum degi. Fjölmörg fyrirtæki bjóða upp á siglingar þaðan, ýmist í hvalaskoðun, lundaskoðun, útsýnisferðir eða í...

Öll heimsins tungumál má heyra á Gömlu höfninni í Reykjavík enda hundruð erlendra ferðamanna sem leggja leið sína þangað á hverjum degi. Fjölmörg fyrirtæki bjóða upp á siglingar þaðan, ýmist í hvalaskoðun, lundaskoðun, útsýnisferðir eða í sjóstangaveiði. Fjölmargir veitingastaðir og verslanir eru við höfnina sem myndar stemningu sem finnst hvergi annars staðar í borginni.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Manni líður eins og maður sé ekki beint í Reykjavík. Hinn almenni Reykvíkingur heimsækir höfnina sjaldan og þegar maður hugsar um Reykjavík þá koma staðir eins og Laugavegurinn, Austurvöllur eða Hallgrímskirkjan fyrst upp í kollinn á manni. Þess vegna líður mér alltaf eins og ég sé kominn út á land þegar ég mæti til vinnu á Reykjavíkurhöfn,“ segir Viktor Ingi Lorange, þjónn á veitingastaðnum MAR við Gömlu höfnina í Reykjavík.

Gamla höfnin iðaði af mannlífi í gær. Fjöldi erlendra ferðamanna var þar á sveimi, ýmist á leið í eða úr skipulögðum bátsferðum eða á einhverjum fjölmargra veitingastaða við höfnina. Þá voru margir ferðamenn sem vildu einfaldlega skoða það sem Gamla höfnin hefur upp á að bjóða. Þar ber helst að nefna Slippinn. Slippurinn hefur löngum vakið mikla athygli meðal ferðamanna og höfðu margir ferðamenn orð á því við blaðamann Morgunblaðsins að þeir hefðu aldrei séð skip á þurru landi, „hvað þá í göngufæri frá miðbænum“.

Viktor segir sólarlítið sumar ekki hafa haft mikil áhrif á fjölda ferðamanna sem heimsæki höfnina. „Það liggur við að það sé skemmtilegra að vera á höfninni þegar það rignir úti. Litadýrðin sem fylgir í kjölfar rigningarinnar er engu lík. Túristarnir streyma hingað á höfnina í regnjökkunum sínum, í öllum regnbogans litum,“ segir Viktor og hlær. Hann bætir við að eini munurinn á sól og rigningu á höfninni sé hvar fólk vilji sitja, úti eða inni.

Viktor segist almennt vera ánægður með skipulagið á höfninni. „Ég vil þó sjá meiri list hér á svæðinu til að mynda ákveðna hafnarstemningu. Það vantar svo sannarlega ekki fólkið,“ segir Viktor.

Hafnarsvæðin eftirsótt

Hafnarsvæðin hafa löngum verið mikilvæg atvinnusvæði í Reykjavík. Undanfarin ár hafa svæðin þróast í takt við fjölgun ferðamanna hérlendis og á Gömlu höfninni má nú finna fjölda veitingastaða, farþegabáta, hjólaleigu, verslanir og hótel. Ferðamönnum sem fara um höfnina fjölgar frá ári til árs og í fyrra fóru um 115 þúsund farþegar í hvalaskoðun frá Gömlu höfninni. Mikil eftirspurn er eftir húsnæði eða plássi á Gömlu höfninni og hafa því mörg fyrirtæki innan ferðageirans komið sér fyrir á Granda. Hafnarsvæðin höfða því greinilega til ferðamanna þar sem verslunum fjölgar og þjónusta eykst sífellt og ferðaþjónustan þar blómstrar sem aldrei fyrr.

Íslendingar sækja í sjóstöng

Eitt þeirra fyrirtækja sem bjóða upp á bátsferðir frá höfninni er Special Tours og segir Þurý Hannesdóttir, gæða- og vefstjóri fyrirtækisins, það alltaf vera skemmtilegt að horfa á mannlífið á höfninni og á fallega útsýnið út á sjóinn, sem og að vera innan um alla afþreyinguna og góðu veitingastaðina sem séu á höfninni.

„Hafnarlífið er yndislegt og það er mjög gaman að sjá hversu mikil uppbygging hefur átt sér stað hér við höfnina undanfarin ár,“ segir Þurý. Hún segir hafnarlífið hafa gengið mjög vel fyrir sig í sumar.

„Það er alltaf mikið líf hér á höfninni og auðvitað æðislegt þegar sólin skín inn á milli, þá fjölgar í ferðirnar og fólk getur setið úti á veitingastöðunum hér í kring,“ segir Þurý sem segir veðrið vitanlega hafa áhrif í þessum bransa.

Veðrið hefur auðvitað alltaf einhver áhrif á sjóferðirnar, sérstaklega ef það eru óhagstæðar vindáttir. Við reynum að segja gestum okkar að hvölunum sé alveg sama þó það rigni aðeins og svo erum við með rosa góða galla fyrir farþegana okkar sem henta vel í íslenskri veðráttu,“ segir Þurý.

Þó svo að erlendir ferðamenn séu í miklum meirihluta á Gömlu höfninni segir Þurý að Íslendingar láti reglulega sjá sig.

„Þeir koma hingað og þá oftast til þess að borða á góðu veitingastöðunum sem við höfum hérna við Gömlu höfnina. Einnig er það mjög vinsælt meðal Íslendinga að fara í sjóstangaveiði,“ segir Þurý,

Þá segir hún Íslendinga láta vel af „Dinner Cruise“-ferðum fyrirtækisins. Í þeirri ferð er hvalaskoðunarskipinu Andreu breytt í fljótandi veitingastað og segir hún það vera gert í samstarfi við veitingastaðinn Kopar sem einnig er við höfnina.