Tónar Músíkin gleður og því verður sjálfsagt gaman á hátíð helgarinnar.
Tónar Músíkin gleður og því verður sjálfsagt gaman á hátíð helgarinnar. — Morgunblaðið/Ómar
Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur nú um verslunarmannahelgina að Varmalandi í Borgarfirði á sitt árlega harmonikumót sem ber yfirskriftina Nú er lag. Þetta er í fjórða sinn sem þetta mót er haldið og hefur þátttakan jafnan verið góð.

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur nú um verslunarmannahelgina að Varmalandi í Borgarfirði á sitt árlega harmonikumót sem ber yfirskriftina Nú er lag. Þetta er í fjórða sinn sem þetta mót er haldið og hefur þátttakan jafnan verið góð. Á móti þessu stillir fólk saman strengi sína, dragspilið er þanið og svo skemmtir það sér saman í nokkra daga og dansar á kvöldin.

Fjölmargar harmonikuhljómsveitir félagsins munu leika fyrir dansi og jafnvel er von á gestaspilurum úr sveitum Borgarfjarðar.

Von á norska harmonikusnillingnum Emil Johansen sem ætlar að taka þátt í hátíðinni, ásamt fjölskyldu sinni. Johansen er 37 ára gamall Norðmaður sem undanfarin ár hefur vakið mikla athygli fyrir góðan tónlistarflutning. Hljómsveit Emils leikur á tónleikum kl. 14 á laugardeginum, en tvær dætur hans sem eru 14 og 11 ára taka einnig þátt í spilverki þessu.

Auk tónlistaratriða verður sölusýning á harmonikum af ýmsum gerðum á vegum EG tóna.