Höfuðborgarsvæðið yrði frábært ef íbúum þess myndi fjölga um svona eins og hálfa milljón

Það er alltaf gott að koma heim, sérstaklega eftir langar fjarvistir. Heim getur samt verið svo afstætt. Á ferðum mínum um Mið-Evrópu á fyrri hluta árs var Vín alltaf heim. Þegar ég var svo í Vín var Reykjavík heim.

Hinn forni sannleikur er að það breytist ekkert þegar maður fer til útlanda nema maður sjálfur. Það er að mörgu leyti rétt. Ég hef miklu betur áttað mig á verðmæti þess að búa þétt svo almenningssamgöngur virki.

Evrópusambandið er hvorki bjargvættur okkar né banabiti, það er bara risavaxin stofnun sem oft er notuð til að matreiða löggjöf ofan í fólk sem þjóðþingin vilja ekki berja í gegn af ótta við óvinsældir.

Íslenskt veðurfar er ömurlegt, en of mikill hiti er verri en rok eða rigning. Samt ekki saman, rok og rigning er alltaf verst.

Umræða erlendis er á nákvæmlega jafnlágu plani og hún er á Íslandi.

Heima er samt ekki alveg eins og það var. Þegar ég gekk niður Laugaveginn varð ég hissa á hvað ótrúlega margir ferðamenn eru þessa dagana í miðborg Reykjavíkur. Fjöldinn var ekki svona áberandi síðasta sumar – nú verður varla þverfótað fyrir pólfaraklæddum útlendingum.

Þessi þróun er öll hin ágætasta. Ef Reykjavík, já og Ísland í heild, vantar eitthvað, þá er það ekki betra veður eða fleiri virkjanir eða ódýrari bjór. Okkur vantar fleira fólk. Höfuðborgarsvæðið yrði frábært ef íbúum þess myndi fjölga um svona eins og hálfa milljón, án þess að það stækkaði út á við. Sveitir landsins væru líka mun betur settar ef á landinu öllu byggju milljón sálir, jafnvel þótt hlutföllin höfuðborg/landsbyggð héldust óbreytt. Á Akureyri byggju 50.000 manns og á Ísafirði 10.000.

Auðvitað fylgja þessum ferðamannastraumi vaxtarverkir. Leigumarkaðurinn þrengist og lundabúðir yfirtaka rými þar sem áður voru virðulegar herrafataverslanir. Á móti kemur að öll þjónusta og afþreying verður arðbærari, sem skilar sér í betri borg fyrir okkur sem erum í henni árið um kring.

Hið fornkveðna sannaðist því ekki alveg. Heima er eiginlega orðið betra en það var áður en ég fór.

Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.is

Höf.: Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.is