[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Úlfar Þormóðsson. Veröld, 2014. Kilja, 157 bls.

Úlfar Þormóðsson rithöfundur fylgir nú eftir áhrifaríkum endurminningabókum um móður sína og föður, Farandskuggum (2011) og Boxaranum (2012), með Uggi , bók sem ber undirtitilinn „Brot úr ævi“. Höfundurinn, sem kveðst hafa „varið óratíma í bið“ og vera þaulvanur, þjáist í upphafi bókar af því sem hann kallar „vanmáttarbið“ og í ljós kemur að ástæðan er sú að hann hefur lagt handrit inn til útgefanda síns og bíður þess að dómur um ágæti þess falli. Til að takast á við óþolið sem fylgir biðinni ákveður hann að prófa nokkuð sem hann hefur ekki gert áður: „Að færa til bókar atburði daganna og andlegt og líkamlegt ástand mitt í einhvern tíma ef það mætti verða til þess að ég fyndi fótanna“ (7).

Frásögnin er skráning á ferð höfundarins gegnum lífið nokkra nýliðna mánuði, hugsanir hans og upplifanir, sögð af sjónarhóli lífsreynds og kaldhæðins manns sem kveðst hafa áttað sig á því að listamenn eigi ekki að gera annað en að skapa það sem hugurinn býður þeim „jafnvel þó að þeir þurfi að sproksetja guði og menn eða skrifa um stjórnmál á himni og jörð til þess að ná því fram“ (10). Höfundurinn fylgist með fjölmiðlum og pirrar sig á nýráðherrum, greinir reglulega frá því sem hann er að lesa og veltir því fyrir sér, hann segir frá tóbaksnautn sinni, rithöfundarferlinum og öðrum störfum, og fólki sem hann hittir á göngu eða á kaffihúsum. Biðinni lýkur síðan, útgefandinn fellir dóm og höfundurinn ræðst í að bæta handritið; byltir því sýnilega á ýmsa vegu, er ósáttur við ýmislegt og ekki alltaf í jafnvægi, en alltaf skráir hann þessa frásögn sem við lesum, um líf hans og glímuna við orðin og endurtekningarsaman hversdaginn.

Þetta er einlæg frásögn sem í grunninn fjallar um þær efasemdir um sköpunina og starfið sem listamaðurinn glímir sífellt við, og þau markmið sem hann setur sér en ganga ekki alltaf upp. „Ég var sex mánuði á listamannalaunum við skriftir sem eru að engu orðnar,“ skrifar höfundur þegar hann hefur fengið handritið aftur í hausinn. Og bætir við: „Þetta var í fjórða eða fimmta skipti sem ég fékk laun í svona langan tíma á tæplega 576 mánaða höfundarferli. Ég skammast mín“ (54).

Uggur er fallega stíluð og athyglisverð frásögn af upplifunum og hugsunum höfundar, og hugmyndum hans um samfélagið sem hann hrærist í. Hún býr ekki yfir þeirri tilfinningalegu og á köflum sáru dýpt sem hrífur lesendur við lestur bókanna um móður og föður Úlfars, en hún er forvitnileg og grípandi. Þessi 69 daga skrásetning sem höfundur kveðst hafa þvingað sig til að skrifa, með þann ugg í brjósti sem titillinn vísar til, reynist vera athyglisvert ævibrot að lesa um.

Einar Falur Ingólfsson