Fjárfestar Tchenguiz-bræður voru umsvifamiklir viðskiptavinir Kaupþings.
Fjárfestar Tchenguiz-bræður voru umsvifamiklir viðskiptavinir Kaupþings. — Morgunblaðið/Ómar
Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) hefur náð samkomulagi við fjárfestinn Robert Tchenguiz um greiðslu skaðabóta vegna óréttmætrar handtöku á honum í tengslum við rannsókn embættisins á viðskiptum hans við Kaupþing banka.

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) hefur náð samkomulagi við fjárfestinn Robert Tchenguiz um greiðslu skaðabóta vegna óréttmætrar handtöku á honum í tengslum við rannsókn embættisins á viðskiptum hans við Kaupþing banka.

Mun SFO greiða honum 1,5 milljónir sterlingspunda, jafnvirði um 300 milljóna króna. Fyrr í vikunni var einnig greint frá því að embætti efnahagsbrotadeildarinnar hefði samið við bróður hans, Vincent Tchenguiz, um bætur upp á þrjár milljónir punda vegna sama máls.

Þeir bræðurnir voru á meðal umsvifamestu viðskiptavina Kaupþings áður en bankinn fór í greiðsluþrot haustið 2008.

Rannsókn SFO á bræðrunum og fjárfestingafélögum þeirra kom til vegna falls Kaupþings og fjármuna sem höfðu streymt úr honum skömmu fyrir bankahrunið. David Green, forstjóri SFO, hefur beðið bræðurna afsökunar á handtökunum.

Árið 2012 tók dómstóll í Bretlandi til baka þá húsleitarheimild sem SFO hafði verið veitt. Við skoðun málsins kom í ljós að embættið hafði ekki verið með neinar öruggar heimildir fyrir þeim ásökunum sem lágu til grundvallar beiðninni.