[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir: Jakob Ejersbo, JPV 2014, 403 blaðsíður.

Uppreisn er önnur bókin í þríleik danska rithöfundarins Jakobs Ejerbos. Sú fyrsta, Útlagi , kom út hér á landi í fyrra og þar sagði frá erlendum unglingum í Tansaníu, en sjálfur ólst Ejersbo upp þar. Eins og sú fyrri er þessi afbragðsvel þýdd af Páli Baldvini Baldvinssyni.

Ólíkt Útlaga er Uppreisn ekki heilsteypt frásögn, heldur skiptist í níu frásagnir þar sem mismunandi persónur segja frá. Allar hafa þær tengsl við Tansaníu, þó mismikil og missterk.

Sögusviðið er m.a. Helsinki, Kaupmannahöfn, Dúbaí, Tansanía og Chicago. Persónurnar námuverkamenn í eðalsteinanámu, Grænlendingar í Danmörku, læknir í Bandaríkjunum, öryggisvörður í Finnlandi og indverska unglingsstúlkan Baby. Fjölbreyttur hópur, sem engu að síður á ýmislegt sameiginlegt; allar persónurnar eru meira eða minna menningarlega rótlausar, vita ekki alveg hvar þær eiga heima. Spilling, illska, ást, svik, alls konar ofbeldi og barátta um völd á ýmsan hátt einkennir samskipti þeirra.

Í best skrifaða og jafnframt lengsta kafla bókarinnar, sem síðan skiptist í 48 kafla, segir frá þjónustustúlkunni Rakel, sem er komin frá litlu heimaþorpi sínu til borgarinnar Moshi í Tansaníu og er staðráðin í að breyta lífi sínu til hins betra, læra ensku og vinna hörðum höndum. Það er þó hægara sagt en gert fyrir saklausa og bláfátæka stúlku sem býr við það ömurlega hlutskipti, sem bíður kvenna víða í heiminum, að eiga fárra annarra kosta völ en að gifta sig til að hafa í sig og á.

Sagnagáfa Ejersbos er ótvíræð og persónusköpun með því betra sem gerist, burtséð frá því hvort hann skrifar um karla eða konur. Sögurnar grípa þéttingsfast, vissulega mismikið en hafa allar mikla dýpt. Tónninn er óvæginn og harður, en á sama tíma lýsir Ejersbo með mikilli meðaumkun og skilningi á öllu því sem getur nú komið fyrir fólk í lífinu. Ekkert er einfalt, hlutirnir hvorki svartir né hvítir heldur bara allskonar. Eða eins og hinn finnski Jarno segir: Maður er hvorki góður né illur – bara tækifærissinnaður. Við erum ólík, það sem einum er hollt, tortímir öðrum. (329). Eins og fyrri bókin er þetta ekki hugguleg lesning, en alveg óskaplega góð.

Anna Lilja Þórisdóttir