Heildin Kvartettinn Fjórir fjórðungar kemur fram á Hressó komandi sunnudag en á Kexi þriðjudaginn í næstu viku. Tónlistarmennirnir leggja áherslu á að þótt þau séu fjórir einstaklingar, þá myndi þau líka eina heild.
Heildin Kvartettinn Fjórir fjórðungar kemur fram á Hressó komandi sunnudag en á Kexi þriðjudaginn í næstu viku. Tónlistarmennirnir leggja áherslu á að þótt þau séu fjórir einstaklingar, þá myndi þau líka eina heild.
Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir gith@mbl.is „Við höfum ekki unnið saman áður en ég hef aldrei spilað á Íslandi fyrr og mig hefur lengi langað að bæta úr því.

Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir

gith@mbl.is

„Við höfum ekki unnið saman áður en ég hef aldrei spilað á Íslandi fyrr og mig hefur lengi langað að bæta úr því. Ég kynnti mér því úrval íslenskra tónlistarmanna og ákvað að mig langaði að spila með þessum þremur. Það var frábært en kom mér aðeins á óvart hvað allir voru jákvæðir gagnvart þessu og sögðu strax já,“ segir Oddrún Lilja Jónsdóttir, ungur og upprennandi gítarleikari. Hún hefur búið í Noregi alla ævina utan eitt ár í æsku er hún bjó á Íslandi en íslenskuna talar hún enn. Komandi sunnudag mun Oddrún spila á tónleikum á Íslandi í fyrsta sinn en þar kemur hún fram sem hluti af kvartettinum Fjórum fjórðungum. Tónleikarnir fara fram á Hressó kl. 21 en kvartettinn kemur aftur fram á Kexi þriðjudaginn 5. ágúst kl. 20.30. Aðrir meðlimir kvartettsins eru Sigrún Jónsdóttir básúnuleikari, Leif Gunnarsson bassaleikari og Matthías Hemstock er leikur á trommur.

Lék fyrir milljónir hlustenda

Þegar blaðamaður spyr hvort nafn kvartettsins, Fjórir fjórðungar, tengist landfræðilegum uppruna tónlistarmannanna, segir Oddrún svo ekki vera. „Ég legg mikið upp úr því að við séum öll fjögur saman í þessu. Við erum einstaklingar en myndum þó heild. Þannig er nafn kvartettsins komið til. Við erum fjórir fjórðungar sem saman mynda eina heild,“ segir Oddrún um tilurð nafnsins.

Þótt Oddrún hafi ekki áður leikið hérlendis hefur hún ferðast víða vegna tónlistarinnar.

„Ég hef farið í tónleikaferðalög á marga staði, til dæmis til Afríku og New York. Í desember fer ég síðan til Nepal með hljómsveit sem ég er í úti í Noregi. Það er mjög skemmtilegt og spennandi að spila í útlöndum en ólíkt eftir því hvert maður fer. Afríka og New York voru til dæmis mjög ólíkir staðir,“ segir Oddrún kímin en eftir dvölina í Afríku var henni boðið þangað aftur og þá til Mósambík. Greinilegt er því að tónlist hennar er vel metin. „Í Mósambík spilaði ég á „festivali“ en það var tekið upp og hlustendur voru því samtals margar milljónir,“ segir Oddrún. En er ekki stressandi að spila fyrir svo marga? „Nei, mér finnst það ekki erfitt. Eiginlega bara skemmtilegt,“ segir tónlistarkonan knáa.

Semur tónlist sjálf

Oddrún leikur aðallega djasstónlist en segist þó einnig hafa heillast af þjóðlagatónlist, til dæmis frá Indlandi og Skandinavíu. „Á efnisskrá tónleikanna hér á Íslandi verður eitt norskt þjóðlag og eitt íslenskt en annars samanstendur hún mestmegnis af frumsaminni tónlist eftir mig. Aðrir meðlimir kvartettsins leggja síðan líka til lög,“ segir Oddrún. Spurð hvernig samstarfið hafi gengið, segir hún: „Ég er ákaflega glöð með samstarfið í kvartettinum. Þegar við hittumst og prófuðum að spila saman hljómaði tónlistin vel frá fyrsta tóni. Ég er mjög ánægð.“