Kvikmyndagerðarmenn Davíð Ólafsson og Gunnar Hansson vinna um þessar mundir að kvikmyndinni Bakk en hana á að frumsýna um páskana á næsta ári. Myndin segir frá tveimur félögum sem bakka í kringum landið.
Kvikmyndagerðarmenn Davíð Ólafsson og Gunnar Hansson vinna um þessar mundir að kvikmyndinni Bakk en hana á að frumsýna um páskana á næsta ári. Myndin segir frá tveimur félögum sem bakka í kringum landið. — Morgunblaðið/Þórður
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Þetta er saga sem ég hef gengið með í mjög mörg ár. Hún segir frá tveimur vinum sem bakka á bíl í kringum Ísland. Ég hef farið í rosalega marga hringi með söguþráðinn í hausnum á mér.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Þetta er saga sem ég hef gengið með í mjög mörg ár. Hún segir frá tveimur vinum sem bakka á bíl í kringum Ísland. Ég hef farið í rosalega marga hringi með söguþráðinn í hausnum á mér. Ég ákvað að kynna hugmyndina fyrir Davíð Ólafssyni og Árna Filippussyni, eigendum framleiðslufyrirtækisins Mystery, fyrir um tveimur og hálfu ári. Þeir tóku bara vel í þetta allt saman og allt í einu var boltinn farinn að rúlla. Þeir hafa komið inn í handritsskrifin með allskonar hugmyndir og fylgt mér í gegnum ferlið. Sagan varð ögn dýpri og það blandast inn í hana forsaga aðalpersónanna. Svo kemur þarna puttaferðalangur sem fer með þeim hringinn. Það eru ævintýri á hverju strái,“ segir Gunnar Hansson um kvikmyndina Bakk . Hann skrifaði handritið að kvikmyndinni og fer auk þess með eitt af burðarhlutverkum myndarinnar. Davíð sér um leikstjórn en Árni um kvikmyndatöku.

Bakkaði í kringum landið 1981

„Ég held að eigin húmor sé í raun eini mælikvarðinn. Ég skrifa til að mynda bara þá mynd sem mig langar að sjá. Það virðist þó vera, miðað við viðbrögð þeirra sem hafa lesið handritið, að kvikmyndin höfði til nokkuð breiðs hóps,“ segir Gunnar spurður að því hver markhópur kvikmyndarinnar sé. Hann segist jafnframt ekki klár á því hvenær eða hvernig söguþræðinum skaut upp í kollinum á honum.

„Ég held að hugmyndin hafi upphaflega komið frá bróður mínum og hans samstarfsfélaga, þeir ráku þá kvikmyndafyrirtæki. Það fyrirtæki fór á svo blússandi siglingu með erlenda framleiðslu og þeir lögðu þetta til hliðar. Hugmyndin sat þó alltaf eftir hjá mér. Mér fannst hún bara eitthvað svo skemmtilega skrítin, að bakka í kringum landið. Þá vissi ég ekki einu sinni að maður nokkur hefði gert þetta í alvörunni. Mig rámaði í eitthvað slíkt en ég mundi ekki almennilega eftir því.

Ég spurði þá síðan nokkrum árum seinna hvort það væri ekki í lagi að ég myndi nota hugmyndina og þeir játtu því. Ég komst síðan að því að maður að nafni Hallgrímur Marinósson hefði bakkað í kringum landið á sínum tíma. Kannski var það einhvers staðar í undirmeðvitund okkar; hann gerði þetta árið 1981,“ segir Gunnar hreinskilinn.

Fengu góða styrki

„Það vill svo skemmtilega til að ég, Davíð og Árni þekkjum alla þessa leikara bara nokkuð vel. Mér fannst mjög gaman að nú loks væri ég kominn hinum megin við borðið og væri farinn að biðja vini mína um að koma og leika í okkar verki. Það hefur auk þess gengið lygilega vel, allir þeir leikarar sem við vildum fá voru til í að taka þátt, með örfáum litlum undantekningum. Þetta er því algjört draumateymi að vinna með,“ segir Gunnar.

„Við vorum það heppnir að við fengum styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands sem gerði okkur kleift að gera myndina. Svo erum við líka í samstarfi með Senu og RÚV. Svo er auðvitað sótt í erlenda sjóði á borð við Norðurlandasjóðinn. Núna erum við að vinna í því að tala við fyrirtæki eins og olíufyrirtæki, bílaleigur eða birgja eins og Ölgerðina. Við vonumst til þess að þau verði með okkur í þessu sem styrktaraðilar. Það er bara ferli sem tekur sinn tíma. Stundum gengur það upp og stundum ekki. Við ætluðum að gera myndina í fyrra en vegna skorts á fjármagni þurftum við að seinka verkefninu sem í raun hefur að okkar mati bara bætt verkefnið. Það gaf okkur meiri tíma til að vinna í því og þróa það. Við náðum að taka hringinn í kringum landið saman, ég Gunni og Árni og fundum alla tökustaðina með góðum fyrirvara. Það hjálpaði okkur líka við að vinna handritið áfram þar sem við sáum hlutina svo rosalega myndrænt,“ segir Davíð.

„Ég hef verið meira í sjónvarpsseríum og yfirleitt eru þær fjármagnaðar að hluta til frá sjónvarpsstöðinni sjálfri. Ég er alveg ægilega glaður að hafa kynnst þessum eðalmönnum sem kunna fjármögnunarferlið miklu betur en ég. Ég slaka því bara á í farþegasætinu á meðan þeir vinna sín töfraverk,“ segir Gunnar kíminn.

Samvinnan hefur gengið vel

„Frá mínum bæjardyrum séð hefur þetta samstarf gengið frábærlega. Maður veit að það getur komið upp ágreiningur í svona samvinnu, sérstaklega ef ein hugmynd er í kollinum á einum og önnur í hinum. Það er engu að síður lygilegt hvað við höfum verið samstiga í hlutum alveg frá upphafi,“ segir Davíð um samstarf þeirra félaga. Gunnar er því sammála.

„Við erum sammála um stefnur og stíl myndarinnar. Eins og Davíð segir þá verð ég fyrir framan myndavélina og hann fyrir aftan hana. Ég treysti hans augum fullkomlega þarna á bak við. Bíómynd er náttúrlega ekkert annað en hópsköpun, það eru svo margir sem koma að henni. Það er enginn kóngur sem ræður einu og öllu, það verða bara allir að koma saman og gera sitt besta. Sem betur fer virtust allir einhuga um það í hvaða átt við ættum að stefna í þessu verkefni,“ segir Gunnar. Davíð bætir því við að ef allt gengur upp eigi kvikmyndin að koma út um páskana á næsta ári.

„Við erum að búa til eins skemmtilegt verkefni og við mögulega getum. Vonandi verður þetta ánægjulegt fyrir áhorfendur og alla þá sem koma að myndinni,“ segir Gunnar að lokum.