Sigríður Guðmundsdóttir fæddist 1. maí 1931. Hún lést 10. júlí 2014. Útför hennar var gerð 22. júlí 2014.

Hvernig kveður maður vini sína? „Sjáumst seinna“ eða eitthvað í þá áttina.

Það er það sem við vinkonurnar, Vorperlurnar, viljum segja núna, þegar við kveðjum eina af vinkonum okkar, hana Siggu, sem alltaf var brosandi og til í að syngja, þegar við hittumst í saumaklúbb og það var nokkuð oft á yfir 60 ára tímabili. Og svo voru það líka ferðirnar á Strandir eða Þórsmörk og fleiri staði. Alltaf jafngaman hjá Vorperlunum og Haustlaukunum, eiginmönnum þeirra.

Eins höfum við tekist á við sorgina, þegar við höfum misst eitthvert okkar. Haustlaukarnir farnir allir nema einn, Gunnar hennar Siggu.

Það er svo margs að minnast; saumaklúbburinn, afmælin, ferðalögin og vinnan. Já vinnan. Við vorum tvær, sem áttum því láni að fagna að vinna hjá Siggu í Silfurbúðinni.

Við óskum henni góðrar ferðar, þökkum samfylgdina og sendum samúðarkveðjur til Gunnars og hans stóru fjölskyldu.

F.h. Vorperlanna,

Margrét Magnúsdóttir.