Að skemmta sjálfum sér og öðrum án þess að það sé á kostnað annarra

Ein mesta ferða- og skemmtanahelgi ársins gengur nú í garð. Um allt land eru haldnar útihátíðir og hefur framboðið og umfangið sjaldan verið meira. Hátíðahald um verslunarmannahelgi fer yfirleitt „vel fram“ að mestu leyti, en því miður ekki öllu og þegar skugga ber á verður það sem vel er gert lítils virði.

Útihátíðir hafa farið úr böndunum og þeim hefur fylgt ofbeldi og nauðganir. Slíkt er vitaskuld ekki boðlegt og þegar það gerist á ekki að taka því af léttúð eða reyna að láta eins og ekkert sé.

Vitundarvakning hefur orðið gegn ofbeldi og nauðgunum um þessa helgi og aðstandendur útihátíða leggja sem betur fer meiri áherslu á forvarnir í þeim efnum en áður.

Nauðganir eru hrottalegur og fyrirlitlegur glæpur, sem skilur líf fórnarlambanna eftir í rúst. Þær aðstæður eru ekki til sem réttlæta nauðganir og karlmenn eiga að snúa bökum saman um að hafna þeim.

Sumir virðast líta svo á að um verslunarmannahelgar séu allir siðferðisþröskuldar afnumdir og hegða sér eftir því. Það er fráleitt því að menn eru ekkert síður ábyrgir gerða sinna þessa helgi heldur en aðra daga ársins.

Þá er sjaldan meiri umferð á þjóðvegum landsins en um verslunarmannahelgar og á mörkunum að vegakerfið ráði við álagið, ekki síst eftir að erlendum ferðamönnum fór að fjölga fyrir alvöru. Umferðin getur því gengið hægt fyrir sig og lykilatriði að ökumenn sýni þolinmæði og tillitssemi og standist freistinguna að ana framúr. Það vinnur engan tíma, en skapar hins vegar hættu á ótímabæru ferðalagi inn í eilífðina.

Ökumenn verða einnig að gæta þess að ana ekki af stað fyrr en áfengi er horfið úr blóði þeirra. Það gerist ekki á einni nóttu. Mikilvægi þess að aka ekki undir áhrifum áfengis verður seint um of undirstrikað. Hryllileg slys hafa verið rakin til vímu og ölvunar. Ölvaðir ökumenn leggja ekki aðeins eigið líf undir, þeir tefla einnig lífum annarra í hættu.

Langflestir taka þó þátt í skemmtanahaldi um verslunarmannahelgina með réttu hugarfari, að skemmta sjálfum sér og öðrum án þess að það sé á kostnað annarra.