Gámur Mekkín segir marga skoða myndlist í Gallerí Gámi sem ekki sækja reglulega hefðbundnar listsýningar.
Gámur Mekkín segir marga skoða myndlist í Gallerí Gámi sem ekki sækja reglulega hefðbundnar listsýningar.
Gallerí Gámur er tilraunaverkefni myndlistarmannsins Mekkínar Ragnarsdóttur en í fréttatilkynningu frá henni segist hún hafa verið orðin þreytt á því að sýna inni í þar til gerðum sýningarrýmum og listasölum, þangað sem alltaf kemur sama fólkið.

Gallerí Gámur er tilraunaverkefni myndlistarmannsins Mekkínar Ragnarsdóttur en í fréttatilkynningu frá henni segist hún hafa verið orðin þreytt á því að sýna inni í þar til gerðum sýningarrýmum og listasölum, þangað sem alltaf kemur sama fólkið. Hún ákvað því að færa listina til fólksins og ferðast nú á milli útihátíða með gám. Í honum setur hún upp myndlistarsýningar og kveður marga koma inn í gáminn sem ekki hafa lagt í vana sinn að sækja myndlistarsýningar. „Ég hef eytt miklum tíma í að tala við almenning um grunntilgang myndlistar. Fólk sem myndi aldrei leggja það á sig að ganga inn á myndlistarsýningu, „villist“ inn í gáminn og spurningaflóðið fer í gang. Auðvitað gerist það að fólk gengur inn, snýr sér í einn hring og fer út. En svo eru margir sem gefa sér tíma og segja mér að þeir fari aldrei á listsýningar og viti ekkert um listir,“ segir Mekkín í fréttatilkynningunni. Gallerí Gámur virðist því ná til þeirra sem hafa hingað til ekki sótt hefðbundnar listsýningar.

Um þessar mundir er sýningin í gámnum eftir Mekkín sjálfa. Sýningin er málverkasýning þar sem hún skoðar birtingarmynd líkamsímyndar í gegnum leikföng barna og málar portrettmyndir af nöktum dúkkum. Í gámnum eru einnig til sýnis og sölu skartgripir eftir Mekkín sem unnir eru úr perlum eftir hefðum indíána í Bandaríkjunum. Perlurnar eru handgerðar af glerlistakonu í Bandaríkjunum úr endurunnu gleri en Mekkín segir perlur vannýtt hráefni í íslenskri list.

Mekkín hefur þegar sýnt í Gallerí Gámi á Mærudögum á Húsavík en gámurinn verður næst staddur á hátíðinni Einni með öllu á Akureyri. Í lok ágúst stefnir Mekkín á að sýna á Akureyrarvökunni.

gith@mbl.is