Flugdagur Skralli trúður tekur á loft á flugdegi á Akureyrarflugvelli með Arngrími Jóhannssyni flugstjóra.
Flugdagur Skralli trúður tekur á loft á flugdegi á Akureyrarflugvelli með Arngrími Jóhannssyni flugstjóra. — Ljósmynd/Hörður Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Ég var svolítið vitlausi trúðurinn til að byrja með, en það hefur mikið breyst með árunum og þroskanum. Ég er ekki sami kjáninn í dag.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ég var svolítið vitlausi trúðurinn til að byrja með, en það hefur mikið breyst með árunum og þroskanum. Ég er ekki sami kjáninn í dag. Nú ræði ég við börnin á vitrænu nótunum og jafnvel leiðbeini þeim,“ segir Skralli trúður sem hefur skemmt börnum landsins í fjörutíu ár.

Pabbi Skralla og samstarfsmaður, Aðalsteinn Bergdal leikari, rifjar upp fæðingu hans. Þegar fyrsta Edrúhátíðin var haldin um verslunarmannahelgi á Hrafnagili í Eyjafirði, 4. ágúst 1974, forfölluðust menn að sunnan sem höfðu verið ráðnir til að skemmta börnum og fullorðnum. Aðalsteinn var fenginn til að bjarga málum. Hann fann trúðsbúning í leikhúsinu á Akureyri og málaði sig þar. „Ég vildi auðvitað hafa komu mína glæsilega og fékk því lánað tveggja manna reiðhjól sem til var í bænum og fór á því fram eftir. Eftir að hafa hjólað á gíralausu reiðhjólinu eftir malarveginum frá Akureyri og fram í Hrafnagil og kjaftað alla leiðina við ósýnilegan félaga sem var með mér á hjólinu, var ég nánast örmagna,“ segir Skralli.

Fer í trúðagírinn

„Á sviðið fórum við, ég og ósýnilegur trúður, sem ég varð að hafa með mér til að tala við í fimmtán mínútur á sviðinu, og gekk bara skolli vel hjá okkur báðum, þótt ég segi sjálfur frá. Á eftir hlupum við út á tún og ærsluðumst þar með yfir 100 krökkum. Krakkarnir spörkuðu í Skralla, klipu hann og tróðu á tánum og hét ég því að þetta skyldi ég aldrei gera oftar,“ segir Aðalsteinn. Það fór öðruvísi og síðan eru liðin fjörutíu ár.

Aðalsteinn segist verða að vera í góðu líkamlegu formi til þess að Skralli geti notið sín. Hann eigi honum því ýmislegt að þakka. „Skralli verður til við spegilinn, þegar ég klæði mig í búninginn og mála mig. Þá fer ég í trúðagírinn, röddin breytist og það er eins og maður fari upp á annað og skemmtilegra plan,“ segir leikarinn.

Hann getur þess að Skralli hafi skrifað tvær sögur sem að vísu hafi ekki enn verið gefnar út. Þar, eins og á sýningunum, komi fram að hann noti annað orðfæri en pabbi hans, noti önnur orð og raði þeim öðruvísi upp. Aðalsteinn segir alls óvíst með útgáfu á sögum Skralla trúðs en bætir við: „Hver veit hvað verður?“

Nýtur vinnunnar í safninu

„Þetta er yndislegur vinnustaður. Ég gæti ekki hugsað mér hann betri, nema auðvitað leikhúsið,“ segir Aðalsteinn Bergdal um vinnuna í Flugminjasafni Íslands á Akureyrarflugvelli. Hann vinnur þar í sumar með Gesti Einari Jónassyni leikara og fleira góðu fólki.

Aðalsteinn tengist fluginu ekkert. „Nema hvað ég hef ógurlega gaman af flugvélum og bátum, á til dæmis litla trétrillu úti í Hrísey og vitaskuld Ferguson '59.“ Leikhúsið hefur annars verið aðalvettvangur Aðalsteins í tæpa fimm áratugi. Fyrir þremur árum slasaðist hann illa í bílslysi og hefur síðan verið meira og minna í vinnu hjá sjálfum sér við að ná sér, eins og hann tekur til orða. Hann er ánægður með þróunina og segir að lokahnykkurinn verði mánaðardvöl á Heilsustofnuninni í Hveragerði.