Ólafur Örn Haraldsson
Ólafur Örn Haraldsson
Eftir Ólaf Örn Haraldsson: "Frá 1. maí til 1. október er fáninn dreginn að húni alla daga á Lögbergi, við Þingvallakirkju, Konungslóð og þjónustumiðstöð..."

Nauðsynlegt er að leiðrétta rangfærslur sem Sigurður Jónsson skrifar um íslenska fánann á Þingvöllum en grein hans „Er Coca Cola-fáni þjóðfáni Íslands“ birtist í Morgunblaðinu í gær, 31. ágúst. Þar skrifar Sigurður: „Á Þingvöllum, sem taldir eru helgasti staður þjóðarinnar, er ekki flaggað nema um helgar og við sérstök tækifæri.“ Hið sanna er eftirfarandi:

Frá 1. maí til 1. október er fáninn dreginn að húni alla daga á Lögbergi, við Þingvallakirkju, Konungslóð og þjónustumiðstöð og sinna landverðir því. Alla lögbundna fánadaga utan þessa tíma eru þessir fánar dregnir að húni. Þannig hefur það verið til margra ára.

Við Þingvallabæinn eru tvær fánastangir sem eingöngu eru notaðar þegar opinberar heimsóknir eru. Við gestastofuna á Haki er íslenski fáninn ásamt merkjum UNESCO og heimsminjaskrár dregnir að húni á hverjum degi allt árið meðan aðstæður leyfa.

Veður hefur áhrif á fánanotkun hjá okkur og stundum þegar er mikill vindur er sleppt að flagga. Það er gert til hlífa fánanum þar sem tjúgufánar geta tæst auðveldlega í sundur í miklum vindi. Veður geta verið válynd hjá okkur og ekki alltaf auðvelt á vetrum að flagga. Þegar snjór og frost hafa fryst fánalínur er lítið hægt að flagga nema með miklum tilfæringum.

Við sinnum því níu fánastöngum á hverjum degi þar af fimm þjóðfánum og fjórum heimsminja- og Unesco-fánum og er það drjúgur tími af föstum morgunstörfum landvarða og starfsmanna að sinna því á háannatíma.

Ekki er flaggað neinum auglýsingafánum innan þjóðgarðsins og hefur ekki verið gert.

Höfundur er þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

Höf.: Ólaf Örn Haraldsson