Mikil smíði Opnað var fyrir umferð yfir nýja Múlakvíslarbrú um síðustu mánaðamót. Brúin er mikil smíði en hún verður vígð 6. ágúst við athöfn.
Mikil smíði Opnað var fyrir umferð yfir nýja Múlakvíslarbrú um síðustu mánaðamót. Brúin er mikil smíði en hún verður vígð 6. ágúst við athöfn. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingvar Smári Birgisson isb@mbl.is Í jökulhlaupinu úr Eyjafjallajökli árið 2011 eyðilagðist brúin yfir Múlakvísl og vegurinn þar í kring.

Ingvar Smári Birgisson

isb@mbl.is

Í jökulhlaupinu úr Eyjafjallajökli árið 2011 eyðilagðist brúin yfir Múlakvísl og vegurinn þar í kring. Nú hefur verið opnuð ný brú yfir Múlakvísl og vegurinn í kring lagfærður en áætlaður heildarkostnaður er um 1,2 milljarðar króna, þar af eru um 130 m. kr. vegna bráðabirgðaaðgerða í kjölfar jökulhlaupsins aðfaranótt 9. júlí 2011.

Hönnuð til að þola jökulhlaup

Nýja brúin verður vígð 6. ágúst. Framkvæmdir voru á undan áætlun, en gert var ráð fyrir að smíði brúarinnar yrði lokið 1. september. Umferð var hleypt á brúna, sem er tvíbreið, um síðustu mánaðamót en framkvæmdir hófust í ágúst 2013.

Hin nýja brú er betur til þess fallin að takast á við jökulhlaup en sú fyrri. Brúargólfið á nýju brúnni er tveimur metrum hærra en var á eldri brú og lágpunktar eru hafðir í veginum báðum megin brúar til þess að flóð af þeirri stærðargráðu sem varð í júlí 2011 taki ekki af brúna, en rjúfi þess í stað veginn sem talsvert fljótlegra er að lagfæra en að smíða nýja brú. Brúin er 162 metra löng og er eftirspennt bitabrú í sex höfum og 10 metrar á breidd. Endurbyggja þurfti veginn sem skemmdist í jökulhlaupinu árið 2011, en vegarkaflinn er 2,2 kílómetrar á lengd og 8 metrar á breidd. Kostnaður vegna framkvæmda við brúna nam 460 milljónum króna, en vegurinn kostaði 200 milljónir króna. Kostnaður vegna rannsókna og umhverfismats var 40 milljónir króna en vegna stjórnunar, hönnunar og umsjónar verkefnisins nam kostnaður 70 milljónum.

300 m. kr. varnargarður

Byggðir voru 2,5 kílómetra langir rofvarnargarðar upp með ánni. Tilgangur þessara garða er að beina ánni undir brúna komi flóð. Það þurfti 199.000 rúmmetra af fyllingarefni í varnargarðinn, sem unnið var í grjótnámu á Mýrdalssandi. Grjótnám og bygging varnargarða kostaði 300 milljónir króna. Heildarkostnaður er því 1.200 milljónir króna.

„Við erum ánægð með að brúin sé komin í gagnið. Vegagerðin hefur staðið sig vel í að koma þessu mannvirki upp en það er brýnt að fækka einbreiðum brúm. Á Sólheimasandi er löng, einbreið brú þar sem mörg slys hafa orðið undanfarið. Margir útlendingar sem koma hingað til landsins hafa aldrei séð einbreiðar brýr áður og þetta getur því verið hættulegt,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, en bráðabirgðabrúin var einbreið.

Bráðabirgðabrúin var byggð á einni viku í kjölfar jökulhlaupsins 9. júlí 2011. Vegagerðin reynir að eiga efni í 200 metra langa brú fyrir óvænt tilfelli og því var hún vel búin undir jökulhlaupið. Upprunalega var gert ráð fyrir að verkið tæki tvær til þrjár vikur en fljótlega kom í ljós að hægt yrði að flýta verkinu og fór svo að brúin var opnuð 16. júlí eða viku eftir að hringvegurinn rofnaði.