Axel Pálmason fæddist 28. september 1961. Hann lést 10. júlí 2014. Útför Axels var gerð 24. júlí 2014.

Það voru ömurlegar fréttir sem bárust frá Washington nýverið um að Axel Rúnar, gamall skólafélagi og vinur, hefði lent í slysi og væri ekki hugað líf. Höggið kom svo skömmu seinna, Axel var dáinn. Kynni mín af Axel hófust í Héraðsskólanum í Reykholti. Þar urðum við hluti af góðum og samhentum hópi enda myndast gjarnan einstök stemning og órjúfanleg tengsl í heimavistarskólum. Í minningabók frá Reykholti rifjar hann upp hversu oft hann kom í heimsókn til mín inn á herbergi, oftast til að betla verkefni í dönsku. „Þú hagar þér svo vel í sumar, vina mín,“ skrifar hann, og biður mig svo um að njóta lífsins „meðan enn þú ert ung.“ Þetta, ásamt fleiri fallegum orðum í minningabókinni, er gott að ylja sér við þessa dagana.

Á Egilsstöðum fórum við Axel nokkrum sinnum á þjóðdansaæfingar hjá Fiðrildunum en hann var mjög flinkur dansari. Hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að fá að njóta hæfileika hans á dansgólfinu. En svo fór að eldri konurnar urðu alsælar að fá þennan unga og flotta herramann í dansinn. Axel sóttist námið vel og tók einnig virkan þátt í félagslífi. Bæði úr Reykholti og ME eru ógleymanlegar stundir og dýrmætar minningaperlur. Axel var gífurlega metnaðarfullur og fylginn sér. Starfsferill hans var lengst af í Bandaríkjunum og við vinir hans fylgdumst með úr fjarlægð, stolt af okkar manni.

Axel var skemmtilegur og traustur félagi og vinur vina sinna. Hann gat verið býsna kaldhæðinn en sá alltaf spaugilegu hlið málanna. Það var gott að tala við hann og hann hafði ljúfa nærveru. Hann var ævinlega flottur í tauinu og mjög smart. Var töffari og klassa náungi. Það var yfir honum mikil reisn og hann var sannkallaður heimsborgari. Það kemur í hlut samstúdents og góðs vinar, séra Eðvarðs, að jarðsyngja Axel. Hversu ótrúlegt er þetta allt saman og að það skuli í annað sinn á rúmlega ári verða hans hlutskipti að jarðsyngja vin úr hópnum. Fjölmargir skólafélagar og vinir Axels úr Reykholti og ME hafa undanfarið lýst sorg yfir fráfalli hans, sakna góðs og skemmtilegs félaga og minnast hans með virðingu og þökk. Allur þessi hópur hugsar til Tammy og barnanna, einnig til móður og systkina Axels, sendir þeim innilegar samúðarkveðjur og biður þeim Guðs blessunar. Vinahópurinn góði úr ME harmar grimm örlög góðs félaga en þakkar fyrir ógleymanlega samveru, vináttu og minningar. Góður drengur er genginn. Blessuð sé minning hans.

Sigurlaug Kr. Konráðsdóttir.