Raunir Argentínu sýna hvílíkt grundvallaratriði það var að íslenska ríkið skyldi ekki ábyrgjast greiðslu á skuldum íslensku bankanna

Efnahagsþrengingunum í Argentínu virðist seint ætla að linna. Í gær fór landið í þrot í annað skipti á þrettán árum. Ástæðan var niðurstaða dómara í New York í þrætu Argentínu við tvo vogunarsjóði, sem neituðu að taka þátt í samkomulagi argentínska ríkisins við aðra lánardrottna þess um niðurfellingu 70% skulda. Sagði dómarinn að Argentína mætti ekki greiða hinum lánardrottnunum, nema greiða einnig þeim, sem ekki vildu lúta samkomulaginu. Vegna úrskurðarins varð ekki af hálfs milljarðs dollara afborgun í gær til lánardrottnanna, sem samkomulagið var gert við.

Argentínsk stjórnvöld gagnrýndu dómarann og sögðu hann vanhæfan. Þau sökuðu einnig bandarísk stjórnvöld um skort á stuðningi, það væri skylda þeirra að sjá til þess að virðing væri borin fyrir fullveldi annarra ríkja.

Tíðindi gærdagsins munu sennilega ekki hafa mikil alþjóðleg áhrif því að Argentína hefur í raun verið útilokuð frá fjármálamörkuðum heimsins frá greiðsluþrotinu 2001. Hins vegar gætu þau orðið til þess að ástandið í Argentínu versnaði enn. Þar hækkaði verðlag um 15% á fyrstu sex mánuðum ársins. Gengi argentínska pesósins var fellt um 20% í janúar og nú gæti önnur gengisfelling vofað yfir.

Staða Argentínu kann að vekja til umhugsunar um stöðu Íslands gagnvart erlendum kröfuhöfum. Þar er þó sá reginmunur á að hér á landi er ekki um að ræða skuldir ríkisins. Raunir Argentínu sýna hvílíkt grundvallaratriði það var að íslenska ríkið skyldi ekki ábyrgjast greiðslu á skuldum íslensku bankanna þegar þeir fóru í þrot.