Samstaða Fjölmenni safnaðist saman við sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg í Reykjavík til þess að mótmæla blóðsúthellingum á Gaza. Formaður Félagsins Ísland-Palestína segir fólk hafa fengið nóg af ástandinu.
Samstaða Fjölmenni safnaðist saman við sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg í Reykjavík til þess að mótmæla blóðsúthellingum á Gaza. Formaður Félagsins Ísland-Palestína segir fólk hafa fengið nóg af ástandinu. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Fjölmenni safnaðist saman við sendiráð Bandaríkjanna í gær þar sem þess var krafist að blóðbaðið á Gaza verði stöðvað án tafar, umsátrinu aflétt og að Palestínumenn hljóti alþjóðlega vernd.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Fjölmenni safnaðist saman við sendiráð Bandaríkjanna í gær þar sem þess var krafist að blóðbaðið á Gaza verði stöðvað án tafar, umsátrinu aflétt og að Palestínumenn hljóti alþjóðlega vernd. Var einnig Barack Obama Bandaríkjaforseti beðinn um að stöðva fjöldamorðin.

„Þetta er stærsti fundur sem haldinn hefur verið við sendiráðið, um og yfir tvö þúsund manns,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ísland-Palestína, og bætir við að hann telji hópinn hafa komið á framfæri skýrum skilaboðum með fundinum. „Við vonum svo sannarlega að Obama fái þessi skilaboð, sem eru þau sömu og berast alls staðar að úr heiminum. Að okkar mati er það á valdi Bandaríkjanna að stöðva þetta blóðbað enda ræður Ísraelsstjórn ekki við að halda þessu til streitu án þeirra stuðnings.“

Mikil samstaða meðal fólks

Spurður hvort hann finni fyrir mikilli samstöðu meðal almennings hér á landi kveður Sveinn Rúnar já við. „Okkur berast margar kveðjur og það streymir inn fólk í félagið. Margir hafa sett sig í samband við okkur og sagst lengi hafa ætlað sér að ganga í félagið en nú geti þeir hreinlega ekki beðið lengur enda hefur fólk fengið nóg.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafa báðir lýst yfir áhyggjum af stöðu mála á Gaza. Sveinn Rúnar fagnar afstöðu ráðherranna í þessu máli. „Ég er mjög ánægður með framgöngu þeirra í þessu máli. Við viljum trúa því og treysta að þeir haldi áfram á þessari braut. Það sér ekki fyrir endann á þessum hernaði því enn eru Ísraelsmenn að herða á og fjölga í herliðinu,“ segir hann og bætir við að krafan um slit á stjórnmálasamstarfi hljóti að koma upp láti Ísraelsmenn ekki af hernaði.