Kjartan Már Kjartansson
Kjartan Már Kjartansson
Kjartan Már Kjartansson var í gær ráðinn bæjarstjóri Reykjanesbæjar út yfirstandandi kjörtímabil. Kjartan er rekstrarhagfræðingur að mennt og hefur síðustu ár starfað sem framkvæmdastjóri Securitas. Reykjanesi.

Kjartan Már Kjartansson var í gær ráðinn bæjarstjóri Reykjanesbæjar út yfirstandandi kjörtímabil.

Kjartan er rekstrarhagfræðingur að mennt og hefur síðustu ár starfað sem framkvæmdastjóri Securitas. Reykjanesi. Hann sat um tíma í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fyrir Framsóknarflokkinn og er núverandi stjórnarformaður Hljómahallar og Rokksafns Íslands. Fram kemur í tilkynningu frá Reykjanesbæ að Kjartan Már sé ekki flokksbundinn neinu stjórnmálaafli nú. Kjartan Már er kvæntur Jónínu Guðjónsdóttur, flugfreyju hjá Icelandair, og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn.

Ráðningin var samþykkt á fundi bæjarráðs í gær með þremur atkvæðum fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn en tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá. Í bókun flokksins segir að sjálfstæðismenn hafi ekki verið upplýstir um efni umsókna þeirra rúmlega 20 sem sóttu um stöðu bæjarstjóra og því sé ógjörningur að taka afstöðu til umsækjenda. Hins vegar sé ánægjulegt að núverandi meirihlutaflokkar skuli komnir af þeirri skoðun sinni að ekki skuli vera pólitískur bæjarstjóri því aðili með skýran pólitískan bakgrunn sé metinn bestur til starfsins. Segjast sjálfstæðismenn munu vinna vel með bæjarstjóranum.