[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1:0 Sebastian Holmén 55. skoraði úr vítaspyrnu eftir brot Jóns Ragnars Jónssonar. 1:1 Steven Lennon 62. slapp inn fyrir vörn Svíanna og kláraði færið af öryggi. 2:1 Per Frick 70. skoraði með skalla eftir hornspyrnu Johans Larssons. 3:1 Marcus Rohdén 81.

1:0 Sebastian Holmén 55. skoraði úr vítaspyrnu eftir brot Jóns Ragnars Jónssonar.

1:1 Steven Lennon 62. slapp inn fyrir vörn Svíanna og kláraði færið af öryggi.

2:1 Per Frick 70. skoraði með skalla eftir hornspyrnu Johans Larssons.

3:1 Marcus Rohdén 81. skoraði með föstu skoti á lofti úr miðjum teignum.

4:1 Simon Hedlund 89. skoraði úr víti eftir að Jonathan Hendrickx braut á Per Frick.

Gul spjöld:

Ólafur Páll (FH) 52. (brot), Jón Ragnar (FH) 55. (brot), Davíð Þór (FH) 81. (brot), Frick (Elfsborg) 88. (brot), Svensson (Elfsborg) 90. (brot).

Elfsborg – FH 4:1

Borås-völlurinn, Evrópudeild UEFA, 3. umferð, fyrri leikur, fimmtudag 31. júlí 2014.

Skilyrði : Sólríkt 20. stiga hiti. Leikið á gervigrasi.

Skot : Elfsborg 12 (8) – FH 9 (4).

Horn : Elfsborg 5 – FH 2.

Lið Elfsborgar: (4-3-3) Mark: Kevin Stuhr Ellegaard. Vörn: Johan Larsson, Daniel Mobaeck, Sebastian Holmén, Adam Lundqvist. Miðja: Marcus Rohdén, Anders Svensson, Viktor Claesson. Sókn: Mikkel Beckmann (Simon Hedlund 36.), Viktor Prodell (Per Frick 68.), Lasse Nilsson.

Lið FH: (4-5-1) Mark: Róbert Örn Óskarsson. Vörn: Jón Ragnar Jónsson, Pétur Viðarsson, Kassim Doumbia, Jonathan Hendrickx. Miðja: Ólafur Páll Snorrason, Hólmar Örn Rúnarsson (Sam Hewson 78.), Emil Pálsson, Davíð Þór Viðarsson, Atli Guðnason (Ingimundur Níels Óskarsson 78.). Sókn: Steven Lennon.

Dómari : Tom Harald Hagen – Noregi.

Áhorfendur : Um þrjú þúsund.

FH-ingar sjálfum sér verstir í Svíþjóð

• Góður fyrri hálfleikur dugði skammt • „Ennþá möguleiki“ Evrópudeildin

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

FH-ingar spiluðu við sænska úrvalsdeildarliðið Elfsborg í 3. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í gærkvöldi ytra og urðu lokatölur 4:1 fyrir sænska liðið.

Leikurinn spilaðist þó ágætlega fyrir FH-inga. Þeir gerðu vel í fyrri hálfleik og réðu vel við alla sóknartilburði Svíanna. Þeir fengu engin opin færi. FH-ingar voru hins vegar skæðir og Emil Pálsson átti meðal annars skot í slá. Svíarnir fengu vítaspyrnu í síðari hálfleik en FH-liðið kom sterkt til baka og jafnaði metin. Allt virtist vera í lagi.

„Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik og héldum þeim vel í skefjum,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir tapið.

Ódýr mörk

FH-liðið fékk hins vegar á sig þrjú mörk á síðustu tuttugu mínútum leiksins. Í gærdag var FH raunar sjálfu sér verst. Mörkin sem liðið fékk á sig voru öll í ódýrari kantinum. FH-ingar fengu á sig tvær vítaspyrnur, eitt mark úr hornspyrnu og fjórða mark Svíanna kom eftir mikinn darraðardans í vítateig FH sem gekk illa að hreinsa boltann í burtu.

„Þegar þú ert kominn á þetta stig keppninnar þá er þér refsað fyrir einbeitingarleysi. Við vorum sjálfum okkur verstir síðustu 20 mínúturnar í leiknum og gott lið eins og Elfsborg refsar þér,“ sagði Heimir sem segir að FH hafi misst leikinn úr höndunum í síðari hálfleik.

„Þeir spiluðu miklu betur í seinni hálfleik, boltinn gekk hraðar á millli manna. Þeir eru náttúrlega mjög öflugt sendingalið á gervigrasinu og við náðum ekki að halda nógu vel aftur af þeim og stoppa sóknir þeirra. Leikhraðinn í fyrri hálfleik hentaði okkur vel en við misstum hann svolítið úr höndunum í síðari hálfleik.“

Veikleikar á öllum liðum

Heimir Guðjónsson er þrátt fyrir erfiða stöðu liðsins bjartsýnn fyrir síðari leik liðanna hér heima sem fram fer næsta fimmtudagskvöld í Kaplakrika.

„Ég held reyndar að við eigum ennþá ágætis möguleika. Það eru veikleikar á öllum liðum og við nýttum okkur þá hjá þeim en hefðum mátt gera það betur. Seinni leikurinn er eftir,“ sagði Heimir hvergi banginn.

Elfsborgarliðið sýndi það í leiknum í gær að um gott lið er að ræða. Þeir sitja sem stendur í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þar sem skammt er í næstu lið fyrir ofan. Svíarnir telja sig einnig vera með nægilega öflugt lið til að þeir þurfi ekki á kröftum Skúla Jóns Friðgeirssonar að halda en hann er á mála hjá félaginu en er í láni hjá Gefle þar í landi.

Nú er um að gera fyrir Hafnfirðinga að fjölmenna í Krikann. Ef Heimir Guðjónsson telur að liðið eigi möguleika, þá á liðið möguleika.