Góðir Hljómsveitin Gæðablóð verður meðal flytjenda á útitónleikunum.
Góðir Hljómsveitin Gæðablóð verður meðal flytjenda á útitónleikunum.
Sífellt bætist í flóru útihátíða sem haldnar eru yfir verslunarmannahelgina en Þjóðhátíðin í OblaDal verður haldin í fjórða sinn komandi sunnudag. Hátíðin fer fram á Frakkastígnum milli kl. 14 og 18 en aðgangur er ókeypis á útitónleikana.

Sífellt bætist í flóru útihátíða sem haldnar eru yfir verslunarmannahelgina en Þjóðhátíðin í OblaDal verður haldin í fjórða sinn komandi sunnudag. Hátíðin fer fram á Frakkastígnum milli kl. 14 og 18 en aðgangur er ókeypis á útitónleikana. „Þetta er og hefur frá upphafi verið fyrst og fremst til gamans gert, fyrir þá sem leið eiga um Laugaveginn þennan dag,“ segir Tómas M. Tómasson, tónlistarstjóri hátíðarinnar og skemmtistaðarins Obladí Oblada, sem er við Frakkastíg. „Þegar við héldum hátíðina fyrst spiluðu hljómsveitirnar bara úti á gangstétt fyrir utan Obladí og einu sinni fengum við að fara upp á tröppur á húsi hinum megin á Frakkastígnum,“ segir Tómas sposkur. „Nú hefur hátíðinni hins vegar vaxið fiskur um hrygg og verður haldin á bílastæðinu á móti Obladí.“ Tómas býst við góðri aðsókn. „Síðustu ár hefur talsverður fjöldi fólks rennt við hjá okkur, bæði Íslendingar og útlendingar. Það er líka vonandi að veðrið verði jafngott á sunnudaginn og það hefur verið síðustu daga. Veðurspáin sýndist mér vera góð síðast þegar ég gáði en það getur auðvitað breyst.“

Úrval tónlistarfólks verður á hátíðinni. „Meðal flytjenda má nefna Bítladrengina blíðu og Gæðablóð. Ætli stærstu nöfnin séu ekki Andrea Gylfadóttir og bíóbandið hennar,“ segir Tómas. „Annars má segja að á tónleikum sunnudagsins verði úrvalið af þeim tónlistarmönnum sem komið hafa hvað oftast fram á Obladí Oblada,“ segir Tómas og býður alla velkomna á Þjóðhátíðina í OblaDal. gith@mbl.is