[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, hefur verið skipaður sendiherra frá 1. janúar 2015, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

Fréttaskýring

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, hefur verið skipaður sendiherra frá 1. janúar 2015, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Hann verður sendiherra Íslands Í Bandaríkjunum, í Washington DC. Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, kemur samkvæmt þessu heim til Íslands fyrir eða um næstu áramót.

Þá skipaði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra Árna Þór Sigurðsson, þingmann VG og fyrrverandi formann utanríkismálanefndar, sendiherra frá sama tíma, þ.e. 1. janúar 2015. Ekki hefur enn verið ákveðið hvaða sendiherrapóstur kemur í hlut Árna Þórs, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er talið líklegt að það verði einhver sendiherrastaða á Norðurlöndum, eða ræðismannsstarf í Færeyjum eða í Winnipeg í Kanada.

Ekki mitt hlutverk

„Utanríkisráðherra hringdi í mig og sagði að hann hygðist skipa Árna Þór sem sendiherra. Ég samþykkti það. Önnur voru afskipti mín af málinu ekki, enda lít ég ekki á það sem hlutverk mitt, að skipa eða taka þátt í vali á sendiherrum fyrir Íslands hönd,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í samtali við Morgunblaðið í gær.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Árni Þór um langa hríð lýst áhuga á því að verða sendiherra fyrir Íslands hönd. Um það ber þingmönnum úr ólíkum flokkum saman.

Stjórnmálamaður hefur ekki verið skipaður í starf sendiherra undanfarin sex ár, en Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að von sé á enn einni pólitískri skipun í sendiherrastarf. Sú sendiherrastaða mun koma í hlut Samfylkingarinnar, en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur forysta Samfylkingarinnar enn ekki gert tillögu um neinn sérstakan kandídat í stöðuna við utanríkisráðherra. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að slíkt hefði ekki verið rætt í forystu flokksins og hann vissi ekki til að málið yrði á dagskrá á næstunni.

Fyrsta breyting á þessu tímabili

Fyrsta breytingin á þingmannahópi Alþingis á þessu kjörtímabili verður um næstu áramót, þegar Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, segir af sér þingmennsku til þess að verða sendiherra Íslands og sæti hans á Alþingi tekur Steinunn Þóra Árnadóttir.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að á síðasta kjörtímabili hefðu þrír þingmenn sagt af sér þingmennsku: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem var þingmaður Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem var einnig þingmaður Samfylkingarinnar, og loks lét Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, af þingmennsku, einungis sex mánuðum áður en síðasta kjörtímabili lauk.

Við þá breytingu að Árni Þór hættir og Steinunn Þóra tekur sæti hans, verður Björn Valur Gíslason fyrsti varaþingmaður VG í Reykjavík norður.