Leigubílaröð Leigubílstjórar hafa í langan tíma orðið varir við ólöglega leigubílastarfsemi í borginni. Málið hefur ratað inn á borð Samgöngustofu en henni hafa borist ýmsar fyrirspurnir vegna starfseminnar.
Leigubílaröð Leigubílstjórar hafa í langan tíma orðið varir við ólöglega leigubílastarfsemi í borginni. Málið hefur ratað inn á borð Samgöngustofu en henni hafa borist ýmsar fyrirspurnir vegna starfseminnar. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Fannar Einarsson pfe@mbl.is Leigubílstjórar landsins hafa miklar áhyggjur vegna svokallaðra „skutlsíðna“ á netinu, þar sem einstaklingar bjóða fólki að keyra það milli staða gegn gjaldi. Slíkar síður finnast m.a.

Páll Fannar Einarsson

pfe@mbl.is

Leigubílstjórar landsins hafa miklar áhyggjur vegna svokallaðra „skutlsíðna“ á netinu, þar sem einstaklingar bjóða fólki að keyra það milli staða gegn gjaldi. Slíkar síður finnast m.a. á Facebook og bera nöfn eins og „Skutlerý“, „Skutlarar!“ og „Driverar“ þar sem menn bæði auglýsa eftir fari og bjóða fram þjónustu sína.

„Við erum eðlilega óánægðir með þetta. Margir leigubílstjórar hafa komið að máli við mig og lýst yfir áhyggjum sínum af þessari þróun, enda er þetta ólöglegt,“ segir Ástgeir Þorsteinsson, formaður Frama og Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra.

Leigubílstjórar hafa í langan tíma orðið varir við ólöglega leigubílastarfsemi í borginni, en Ástþór segir slíka starfsemi hafa farið stigvaxandi frá því seinasta haust. „Svona hark hefur alltaf verið til en aldrei á svona máta. Vinnan hefur minnkað hjá okkur og við finnum þar af leiðandi fyrir tekjutapi. Þeir sem hafa ekki tilskilin leyfi til að keyra leigubifreiðar eiga ekki að gera það. Svo einfalt er það,“ segir Ástgeir.

Kærðu starfsemina

Bifreiðastjórafélagið Frami kærði starfsemi Facebook-síðu, þar sem einstaklingar bjóða fólki að keyra það milli staða gegn gjaldi, til lögreglu í janúar á þessu. Rannsókn stendur enn yfir en ekki liggur fyrir hvort ákært verður í málinu. „Við erum orðnir frekar óþolinmóðir og höfum reynt að ýta á eftir þessu. Þetta hefur gengið hægt en þeir segja að rannsókn ljúki fljótlega og vonandi kemur eitthvað út úr henni,“ segir Ástgeir.

Sönnunarbyrði er erfið í slíkum málum enda þarf m.a. að finna farþega í bílum sem standa í slíkri ólöglegri starfsemi og sanna að þeir greiði fyrir þjónustuna. Ástþór segist þó fullviss um að hægt sé að aðhafast í málinu. „Að sjálfsögðu er það hægt. Nöfn þeirra einstaklinga sem standa í þessu eru á netinu og það er hægt að sækja þessa snillinga. Það er ósköp einfalt mál.“

Málið hefur ratað inn á borð Samgöngustofu en henni hafa borist ýmsar fyrirspurnir vegna starfseminnar. Heimildir Samgöngustofu til að bregðast við eru þó takmarkaðar við leyfissviptingu og fjársekt. „Farþegaflutningur gegn greiðslu er akstur í atvinnuskyni sem er leyfisskyldur. Hafi menn ekki tilskilin leyfi gengur starfsemin í berhögg við lög um leigubifreiðar. Eins og gefur að skilja er hins vegar ekki hægt að svipta aðila leyfi sem ekki hafa leyfi, og hvorki í núgildandi lögum um leigubifreiðar né í reglugerð eru sektarupphæðir tilteknar,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.

Nýtt frumvarp í smíðum

Í innanríkisráðuneytinu hefur verið unnið að frumvarpi sem er ætlað að taka við af lögum um leigubifreiðar og lögum um fólks- og farmflutninga. Frumvarpið gerir ráð fyrir þróuninni sem hefur orðið í akstri, ekki síst hjá ferðaþjónustunni, og tekur mið af þeim breytingum sem hafa orðið á farþegaflutningum í atvinnuskyni síðastliðin ár með tilkomu nýrrar þjónustu. „Þá ég við nýjar þjónustu eins og starfsemi samferða.net, skutlþjónstu hótela og gistiheimila fyrir ferðamenn, skutlþjónustu bifreiðaumboða og verkstæða. Gangi frumvarpið fram og verði að lögum eins og lagt hefur verið upp með í undirbúningi verður efamálum fækkað og aksturinn skilgreindur með ýmsum hætti. Það mun gera Samgöngustofu auðveldara fyrir að bregðast við þeim málum sem upp koma,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.