Afmælisbarn Þjóðbjörg Heiða siglir til Vestmannaeyja í dag þar sem hún ætlar að njóta Þjóðhátíðar ásamt stórum hópi vina sinna úr MR.
Afmælisbarn Þjóðbjörg Heiða siglir til Vestmannaeyja í dag þar sem hún ætlar að njóta Þjóðhátíðar ásamt stórum hópi vina sinna úr MR.
Þjóðbjörg Heiða Þorsteinsdóttir fagnar í dag 24 ára afmæli sínu. Aðspurð segist hún þó ekki ætla að halda sérstaklega upp á daginn í ár.

Þjóðbjörg Heiða Þorsteinsdóttir fagnar í dag 24 ára afmæli sínu. Aðspurð segist hún þó ekki ætla að halda sérstaklega upp á daginn í ár. „Ég ætla að heimsækja afa og ömmu en svo liggur leiðin til Landeyjahafnar þar sem ég er að fara á Þjóðhátíð í fyrsta sinn, ásamt stórum vinahópi úr MR,“ segir Heiða.

Hún útskrifaðist frá Háskóla Íslands í vor sem sjúkraþjálfari eftir fjögurra ára nám og í sumar hefur hún unnið á hjúkrunarheimilinu Eir. Eftir Þjóðhátíð í Eyjum mun hún þó venda kvæði sínu í kross þar sem hún hyggst flytja norður í land.

„Ég flyt til Akureyrar í næstu viku þar sem ég er að hefja störf sem sjúkraþjálfari á einkastofu fyrir norðan,“ segir Heiða og bætir við að hún sé mjög spennt fyrir því að flytja á nýjan stað þar sem hún hefur aldrei búið áður.

Hún segir að ferðalög séu sér mjög hugleikin. „Ég hef mjög gaman af ferðalögum, síðast fór ég til Finnlands á sjúkraþjálfunarnámskeið sem var mjög lærdómsríkt,“ segir Heiða.

Eftirminnilegasta afmælisdaginn segir hún hafa átt sér stað þegar hún var stödd erlendis. „Ég var í frábærri útskriftarferð á Marmaris í Tyrklandi með öllum árgangnum úr MR, það verður mér alltaf mjög minnisstætt.“ sh@mbl.is