[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ása Helga fæddist í Reykjavík 1.8.

Ása Helga fæddist í Reykjavík 1.8. 1984 og ólst þar upp að mestu en átti um skeið á æskuárunum heima í Chicago í Bandaríkjunum og í Coventry á Englandi þegar móðir hennar og stjúpfaðir voru í námi, og síðar eitt ár í Winnipeg er hún var 19 ára og móðir hennar veitti þar forstöðu íslenskudeild Manitoba-háskóla.

Þegar Ása Helga flutti heim frá Winnipeg hóf hún nám í bókmenntafræði við HÍ, en tók síðan eitt ár af BA-náminu við Sorbonne háskóla í París. Hún útskrifaðist úr bókmenntafræðinni 2007, var síðan m.a. bókagagnrýnandi fyrir Víðsjá, TMM og fleiri miðla. Það sama ár starfaði hún einnig við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík þar sem hún sá um gestaumsjón: „Ég hafði alltaf verið bíósjúklingur en kynntist kvikmyndabransanum á nýjan hátt á RIFF. Þess vegna fór að ég að huga að umsókn í kvikmyndagerðardeild Columbia háskóla. Það gekk eftir og ég flutti til New York og útskrifaðist svo frá Columbia vorið 2012. Ég er því tiltölulega nýflutt heim aftur eftir fimm ára dvöl þar í borg.“

Ása Helga hefur skrifað, leikstýrt og klippt fjölda stuttmynda, og ber þá helst að nefna útskriftarmynd hennar Ástarsögu, sem hefur nú verið sýnd á tæplega 40 kvikmyndahátíðum, m.a. í keppni á Clermont-Ferrand, Palm Springs og Nordisk Panorma. Ástarsaga hefur unnið til fjölda verðlauna, og komst í apríl 2013 í lokaúrtak fyrir Óskarverðlaunin í flokki útskriftarmynda úr kvikmyndaskólum.

Ása Helga vinnur nú að sinni fyrstu mynd í fullri lengd, en það er hennar aðlögun á Svaninum, skáldsögu Guðbergs Bergssonar. Svanur Ásu Helgu fékk handritastyrki frá Kvikmyndasjóði Íslands, er eitt af tólf alþjóðlegum verkefnum sem valin voru á „Jerusalem Int'l Film Lab“ 2014, og í febrúar 2014 vann handritið „VFF Talent Highlight Pitch“ verðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín.

Að njóta og að greina í bíó

Auðvitað hefur Ása Helga áhuga á kvikmyndum: „Ég ver örugglega meirihlutanum af mínum frítíma í bíógláp og horfi oft tvisvar eða þrisvar á sömu mynd ef hún er góð eða inspírerandi á einhvern hátt. Mér var einhvern tímann tjáð að nám í kvikmyndagerð myndi spilla þeim hæfileika mínum að horfa á kvikmynd sem áhorfandi. Ég færi að greina myndir sem fagmaður. En mér finnst þetta ekki alveg svona einfalt. Tja, nema kannski að því leyti að stundum er það frústrerandi að horfa á mjög góðar myndir eftir samtímaleikstjóra því þá verð ég öfundsjúk og langar til að hafa gert umrædda mynd sjálf. Þegar kvikmyndum sleppir finnst mér ótrúlega gaman að elda og baka, sérstaklega mat sem þarf að undirbúa lengi, að saxa og hræra í hinu og þessu. Það er líka svo róandi. Draumurinn er risastórt borðstofuborð svo ég geti boðið fólki í langar, flóknar máltíðir eins og í Babettes Gæstebud. En ekki í kvöld. Kannski þegar ég verð fertug. Í kvöld ætla ég að dansa!“

Fjölskylda

Hálfbræður Ásu Helgu, samfeðra, eru Baldur Hjörleifsson, f. 26.5. 1988, tónlistarmaður og nemi í tónsmíðum við LHÍ, búsettur í Reykjavík; Árni Hjörleifsson, f. 23.2. 1991, tónlistarmaður og nemi við Vínarháskóla, og Hjörtur Hjörleifsson, f. 23.2. 1991, tónlistarmaður. Tvíburarnir búa í Vínarborg þar sem þeir eru m.a. í hljómsveitinni Chili and the Whalekillers.

Uppeldissystkini Ásu Helgu eru Andri Bjarnason, f. 13.4. 1983, sálfræðingur í Reykjavík; Ragnheiður Jónsdóttir, f. 18.3. 1986, tónmeister nemi við konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn; Árni Jónsson, f. 20.2. 1989, nemi í myndlist við LHÍ, búsettur í Reykjavík; Finnbogi Jónsson, f. 19.12. 1994, nýstúdent frá MA, búsettur á Akureyri; Lilia Maria Giovanna Vagliengo, f. 23.9. 2002, býr í Salzburg.

Foreldrar Ásu Helgu eru Birna Bjarnadóttir, f. 11.4. 1961, bókmenntafræðingur og forseti íslenskudeildar Manitoba-háskóla, búsett í Winnipeg, og Hjörleifur Hjartarson, f. 5.4. 1960, tónlistarmaður með meiru, búsettur í Svarfaðardal og í Reykjavík.

Stjúpmóðir Ásu Helgu er Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, f. 29.9. 1958, textílhönnuður og safnstjóri á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík, búsett í Svarfaðardal og í Reykjavík.