Risaverkefni Dagur Sigurðsson segist hvergi banginn að taka við þjálfun þýska karlalandsliðsins í handknattleik, en frá því var gengið í gær.
Risaverkefni Dagur Sigurðsson segist hvergi banginn að taka við þjálfun þýska karlalandsliðsins í handknattleik, en frá því var gengið í gær. — EPA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta.

handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Það er auðvitað sárt að þurfa að yfirgefa Füchse Berlin en á móti kemur að ég er að fara í mjög skemmtilegt og áhugavert starf,“ sagði Dagur Sigurðsson við Morgunblaðið í gær, skömmu eftir að hafa gert samning við þýska handknattleikssambandið um að taka við þjálfun landsliðsins.

Dagur, sem tekur formlega til starfa hinn 1. september, samdi til ársins 2017 með möguleika á framlengingu til ársins 2020. Hann mun áfram stýra liði Füchse Berlin á komandi leiktíð en yfirgefur Berlínarliðið í júní á næsta ári. Dagur hefur stýrt liði Füchse Berlin frá árinu 2009 með frábærum árangri, en liðið varð þýskur bikarmeistari síðastliðið vor.

Fyrsta árið strembið

„Ramminn í þessum samningi er til 2020 en hann er uppsegjanlegur hvenær sem er. Þetta ræðst allt af árangri og við vitum að þjálfarastarfið er fallvalt. Ég geri mér grein fyrir því að ég er að fara í mjög krefjandi starf og það verður strembið fyrsta árið þar sem ég verð líka hjá Füchse. Það er ekki alveg nýtt fyrir mig að þjálfa félagslið og landslið á sama tíma. Ég gerði það í Austurríki. Þýska landsliðið hefur lifað svolítið á fornri frægð og menn hafa sofið töluvert á verðinum frá því að liðið vann heimsmeistaratitilinn árið 2007,“ segir Dagur, en hann segir að starfið leggist vel í sig. „Ég veit að ég er með mjög góðan stuðning í kringum mig svo að ég er hvergi banginn. Það er alveg óhætt að segja að það hafi verið talsverður vandræðagangur á þýska landsliðinu á síðustu árum. Rót vandans er að mínu mati sú að liðið hefur ekki unnið nógu marga leiki undanfarin ár og því þarf að breyta. Hlutverk mitt er að koma sigurhefð í landsliðið og vonandi tekst mér það,“ segir Dagur.

Þetta er aðeins í þriðja sinn sem þjálfari utan Þýskalands fær tækifæri til að þjálfa þýska landsliðið, en Júgóslavinn Vlado Stenzel var við stjórnvölinn frá 1974 til 1982 og Rúmeninn Petre Ivanescu þjálfaði liðið frá 1987 til 1989.

Leikir við Ísland í janúar

Fyrsti leikur þýska landsliðsins undir stjórn Dags verður vináttuleikur gegn Svisslendingum hinn 20. september sem fram fer í Göppingen og síðan taka við leikir á móti Finnum og Austurríkismönnum í undankeppni Evrópumótsins áður en heimsmeistaramótið fer fram í janúar á næsta ári, en eins og frægt er komust Þjóðverjar bakdyramegin inn í úrslitakeppnina.

„Það eru stór verkefni fram undan. Fyrst eru þessir leikir í undankeppni EM og svo auðvitað heimsmeistaramótið og vonandi tekst mér að gera góða hluti með liðið í þessum verkefnum,“ segir Dagur, en hann segir að búið sé að ákveða leiki á móti Íslendingum í janúar.

Dagur segist ekki vera búinn að ákveða hver verði aðstoðarmaður hans. „Ég ætla að gefa mér góðan tíma til að finna hann og ég geri fastlega ráð fyrir því að það verði Þjóðverji. Sú hugmynd kom upp að fyrrverandi landsliðsþjálfari myndi gegna þessu starfi en svo verður ekki,“ segir Dagur.