Ábyrgð Lundaveiðimenn í Vestmannaeyjum sýna ábyrgð og hreyfa ekki við lundaveiðinni. Börn og unglingar veiddu 16 lunda í Elliðaey um helgina.
Ábyrgð Lundaveiðimenn í Vestmannaeyjum sýna ábyrgð og hreyfa ekki við lundaveiðinni. Börn og unglingar veiddu 16 lunda í Elliðaey um helgina. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að lundaveiðimenn í Vestmannaeyjum hafi þá fimm daga sem lundaveiði var heimiluðhaldið að sér höndum og leyft lundanum að njóta vafans.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að lundaveiðimenn í Vestmannaeyjum hafi þá fimm daga sem lundaveiði var heimiluðhaldið að sér höndum og leyft lundanum að njóta vafans. Aðeins börn og unglingar hafi fengið að slá fyrir nokkra lunda.

„Það fóru nokkuð margir lundaveiðimenn saman út í Elliðaey nú um helgina, en þeir fóru bara til þess að sinna viðhaldi á húsinu, leiðunum upp í eyjuna, bólinu og þess háttar. Þeir leyfðu börnunum og unglingunum að slá fyrir fugl, og það veiddust sextán lundar í Elliðaey þessa daga,“ sagði Elliði í samtali við Morgunblaðið í gær, á síðasta veiðideginum.

Elliði sagði að Elliðaey væri ein af veiðihærri eyjunum og að hann hefði heyrt svipaðar frásagnir annarra lundaveiðimanna sem farið hefðu út í aðrar eyjar um helgina.

„Það var mjög svipaður háttur hjá öðrum lundaveiðimönnum. Þeir voru sjálfir að sinna viðhaldi en börn og unglingar fengu að slá fyrir fugla. Menn láta lundann algjörlega njóta vafans,“ sagði Elliði.

Elliði segir að það hafi verið mat bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum, þegar heimiluð var lundaveiði í fimm daga af þrjátíu daga tímabili „að höfða frekar til ábyrgðartilfinningar lundaveiðimannanna, sem hafa gríðarlega þekkingu og reynslu, en að vera að stjórna veiðinni eingöngu með boðum og bönnum.

Við vitum sem er að lundaveiðimenn eru ekkert að veiða lunda í þessu árferði. Þetta leyfi í þessa fimm daga er meira til þess að viðhalda menningunni og hefðunum og kenna vinnubrögðin,“ sagði Elliði Vignisson jafnframt.

Hrun lundans
» Í fyrra veiddust um 300 lundar í Vestmannaeyjum en í eðlilegu árferði veiðast um 120 þúsund fuglar.
» Ungfygli lundans hafa ekki komist á legg í 12 ár, samkvæmt Erpi Snæ Hansen, líffræðingi hjá Náttúrustofu Suðurlands.
» Í eðlilegu árferði eru 70% af lundastofninum ungfygli.