Guðjón Baldvinsson
Guðjón Baldvinsson
Framherjinn Guðjón Baldvinsson mun gerast lærisveinn Ólafs Kristjánssonar hjá danska úrvalsdeildarfélaginu Nordsjælland í vetur ef að líkum lætur.

Framherjinn Guðjón Baldvinsson mun gerast lærisveinn Ólafs Kristjánssonar hjá danska úrvalsdeildarfélaginu Nordsjælland í vetur ef að líkum lætur. Nordsjælland freistaði þess á dögunum að fá Guðjón frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Halmstad strax í sumar en án árangurs. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður ekkert af vistaskiptunum fyrr en eftir að tímabilinu í Svíþjóð lýkur, en þá rennur samningur Guðjóns við Halmstad út. Samkomulag á milli Guðjóns og Nordsjælland þar að lútandi mun vera í höfn.

Fredrik Andersson, framkvæmdastjóri Halmstad, segir að tilboð hafi vissulega borist í Guðjón en það hafi ekki verið viðunandi.

„Þeir gerðu tilboð en upphæðin var svo lág að ég vil eiginlega ekki kalla þetta boð. Við sögðum nei við því að sleppa honum núna,“ sagði Andersson við Kvällsposten. sindris@mbl.is