Endurkjörinn Kirsan Iljúmzhínov var að vonum ánægður með niðurstöðu kosninganna, en hann var endurkjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins.
Endurkjörinn Kirsan Iljúmzhínov var að vonum ánægður með niðurstöðu kosninganna, en hann var endurkjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Síðastliðinn mánudag var Rússinn Kirsan Iljúmzhínov endurkjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE.

Baksvið

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Síðastliðinn mánudag var Rússinn Kirsan Iljúmzhínov endurkjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE. Fór kjörið fram í Tromsö og vann Iljúmzhínov öruggan sigur gegn landa sínum Garrí Kasparov, með 110 atkvæðum gegn 61.

Fullyrða má að Iljúmzhínov sé umdeildur maður, en hann hefur m.a. átt í vinasamböndum við þjóðhöfðingja á borð við Vladimír Pútín, Saddam Hússein og Múammar Gaddafi. Fleira þykir þó umdeilt en vinasambönd Iljúmzhínovs, því að við nýliðið kjör forseta FIDE notuðu Rússar starfsmenn utanríkisþjónustu sinnar um heim allan í von um hafa áhrif á úrslit kosninganna.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að sendiráð Rússlands á Íslandi hafi haft samband við hann símleiðis og spurt hvað hann hygðist kjósa.

Utanríkisþjónustan hringdi

„Þeir höfðu samband við mig þegar ég var í Ósló á leiðinni til Tromsö. Þá hringdi í mig maður úr sendiráðinu sem talaði íslensku. Hann spurði mig hvort Skáksamband Íslands hefði ákveðið sig og ég svaraði honum á þá leið að skáksambandið myndi styðja Garrí Kasparov. Ég gaf honum því lítið færi á að ræða þetta mál við mig,“ segir Gunnar og bætir við að hann viti dæmi þess að menn erlendis hafi beinlínis verið kallaðir til fundar við starfsmenn sendiráða Rússlands.

Spurður hvers vegna sendiráð Rússlands víðs vegar um heim séu að skipta sér af kjöri forseta Alþjóðaskáksambandsins með þessum hætti svarar Gunnar: „Kasparov er einn helsti andstæðingur Pútíns.“

- Telur þú að umdeild vinasambönd forseta FIDE varpi skugga á skákíþróttina?

„Mér finnst það. Þessi tengsl valda því að það er í raun algerlega ómögulegt fyrir Skáksamband Íslands og flest önnur skáksambönd á Norðurlöndunum að styðja Kirsan.“

Að sögn Gunnars eru Iljúmzhínov og Kasparov um margt ólíkir menn þótt þeir búi báðir yfir miklum persónutöfrum. Sá síðarnefndi er fyrrverandi heimsmeistari í skák en Iljúmzhínov, sem gegnt hefur embætti forseta Alþjóðaskáksambandsins í 19 ár, er minna þekktur fyrir skákfærni sína. Hann tefldi þó á sínum tíma eftirminnilega við þáverandi leiðtoga Líbýu.

„Ég veit ekki til þess að Kirsan sé góður skákmaður, hann hefur a.m.k. aldrei verið þekktur sem slíkur. Hann var landshöfðingi lýðveldisins Kalmykíu í Rússlandi en árið 1995 var hann kosinn mjög óvænt á FIDE-þingi og hefur haldið þeim völdum síðan,“ segir Gunnar.

Vinsæll pólitíkus

Iljúmzhínov þykir hafa mjög sterka stöðu meðal ríkja Rómönsku Ameríku og virðist ná vel til Afríku- og Asíuríkja auk þess sem hann er vinsæll innan ríkja gömlu Sovétríkjanna. Kasparov nýtur hins vegar meiri hylli innan Evrópu.

„Ég þekki til að mynda til þess að skipt hafi verið um fulltrúa hjá skáksambandi í einum af gömlu ríkjum Sovétríkjanna af því að viðkomandi studdi Anatólí Karpov árið 2010. Þá var honum bara skipt út fyrir kosningarnar núna,“ segir Gunnar og bætir við að Iljúmzhínov hafi hins vegar mikinn sjarma. „Hann er náttúrlega pólitíkus sem náð hefur ansi langt.“

Vantar fleiri styrktaraðila

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, segir þörf á fleiri öflugum styrktaraðilum inn í skákíþróttina en verið hefur að undanförnu. Endurkjör Kirsans Iljúmzhínov í embætti forseta Alþjóðaskáksambandsins, FIDE, mun að mati Gunnars breyta litlu þar um.

„Það vantar öfluga styrktaraðila á borð við Coca-Cola og Google en það verður hins vegar erfitt með Kirsan innanborðs vegna fyrri tengsla hans við Saddam Hússein og Gaddafi. Ímynd FIDE er því slæm að þessu leyti. Maður hefði fremur talið að Kasparov gæti komið þar sterkur inn en Kirsan er þó duglegur að koma með peninga frá Rússlandi. Það verður ekki tekið af honum,“ segir Gunnar.