[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Bókfært virði eignarhlutar Arion banka í Bakkavör Group var tæpir 7,3 milljarðar króna í lok seinasta árs. Bankinn á rúman fjórðungshlut í félaginu sem til stendur að selja.

Baksvið

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Bókfært virði eignarhlutar Arion banka í Bakkavör Group var tæpir 7,3 milljarðar króna í lok seinasta árs. Bankinn á rúman fjórðungshlut í félaginu sem til stendur að selja.

Viðræður standa nú yfir við ráðgjafa, þar á meðal breska bankann Barclays, sem gætu komið að sölunni og fundið áhugasama kaupendur.

Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi – lífeyrissjóður hafa jafnframt í hyggju að selja hluti sína í Bakkavör. Lífeyrissjóðirnir tveir eiga um 12% hlut í félaginu sem er metinn á um 3,1 milljarð króna. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, segir í samtali við Morgunblaðið að það hafi aldrei verið leyndarmál að sjóðurinn hafi hug á að selja hlut sinn, fáist viðunandi verð fyrir hann. Eitthvað hafi verið um þreifingar og fyrirspurnir frá áhugasömum fjárfestum en ekkert sé enn fast í hendi. Beðið sé eftir rétta tímapunktinum.

Aðspurður segir Þórhallur B. Jósepsson, upplýsingafulltrúi Lífeyrissjóðs verslunarmanna, að reynt hafi verið að selja hlut lífeyrissjóðsins í félaginu um nokkurt skeið. Hann segist ekki geta tjáð sig um hugsanlegt söluverð en bendir á að í fyrra hafi sala strandað á því að ekki hafi fengist nógu hátt verð fyrir hlutinn, að mati seljenda.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, vildi ekki tjá sig um málið.

Arion banki á 62% hlut í samlagshlutafélaginu BG12, sem heldur utan um 46% eignarhlut í Bakkavör. Félagið var stofnað í fyrra af bankanum og nokkrum lífeyrissjóðum og fjárfestingarsjóðum. Lífeyrissjóður verslunarmanna á tæpan 15% hlut í félaginu og Gildi tæpan 12% hlut.

Bakkabræður enn stærstir

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar, eru enn sem áður stærstu einstöku hluthafar félagsins með um 40% hlut, að því er segir í frétt Sky . Þeir bættu við sig eignarhlutum hratt árið 2012, en þá keyptu þeir hluti af fyrrverandi kröfuhöfum sínum sem breyttu skuldum Bakkavarar í nýtt hlutafé. Á meðal þeirra voru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, þrotabú Glitnis, sjóðsstýringarfyrirtæki í eigu Íslandsbanka og MP banki.

Fram kom í fjölmiðlum á þeim tíma, um haustið 2012, að blokk annarra kröfuhafa, þar sem Arion banki, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi fóru fremstir í flokki, hefði neitað að selja þeim bræðrum eignarhluti sína.

Eins og Morgunblaðið hefur greint ítarlega frá hafa félög í eigu bræðranna komið með milljarða króna í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands undanfarin ár.

Bakkavör tapaði 1,2 milljónum punda, jafnvirði um 234 milljóna króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Hagnaður síðasta árs nam hins vegar 115 milljónum punda.