Rússar sögðu í gær að búið væri að ná samkomulagi við stjórnvöld í Úkraínu um að lest 262 vörubíla, með brýnar nauðsynjar, mat og fleira, til íbúa Lúhansk og Donetsk, fengi að fara á áfangastað.

Rússar sögðu í gær að búið væri að ná samkomulagi við stjórnvöld í Úkraínu um að lest 262 vörubíla, með brýnar nauðsynjar, mat og fleira, til íbúa Lúhansk og Donetsk, fengi að fara á áfangastað. Liðsmenn Alþjóða Rauða krossins, ICRC, myndu kanna farminn á landamærunum.

En margir eru uggandi um að bílalestin sé einhvers konar Trójuhestur. Ætlun Rússa sé að smygla með henni birgðum til aðskilnaðarsinna sem nú eru umsetnir af úkraínsku herliði í Donetsk. Jafnvel komi til greina að þeir noti bílalestina, sem kemur frá herstöð handan við landamærin, sem eins konar undanfara innrásarliðs.

Aðrir fréttaskýrendur álíta þó að með lestinni séu ráðamenn í Kreml fyrst og fremst að bæta ímyndina. Þeir reyni að tryggja sér aukinn stuðning meðal íbúa í austurhluta Úkraínu. Ljóst þykir að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hafi á sínum tíma ofmetið stuðninginn við Rússland meðal almennings þar en um 1.500 manns hafa fallið í átökum aðskilnaðarsinna við Úkraínuher síðustu mánuði. Agalausir aðskilnaðarsinnar hafa framið ýmis afbrot, stolið eigum fólks og jafnvel nauðgað konum, að sögn fulltrúa Sameinuðu þjóðanna. kjon@mbl.is