Kristján Jónsson kjon@mbl.is Íranar hafa nú hætt stuðningi við forsætisráðherra Íraks undanfarin ár, Nuri al-Maliki og samþykkja að flokksbróðir hans, Haidar al-Abadi, taki við.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Íranar hafa nú hætt stuðningi við forsætisráðherra Íraks undanfarin ár, Nuri al-Maliki og samþykkja að flokksbróðir hans, Haidar al-Abadi, taki við. Abadi nýtur einnig stuðnings Bandaríkjamanna sem hafa gefið í skyn að verði hann forsætisráðherra muni þeir auka stuðning við Íraka.

Maliki skipaði í gær hernum, sem óttast var að myndi reyna valdarán að undirlagi Malikis, að hafa engin afskipti af stjórnmálum. Maliki, sem er sjía-arabi, hefur verið sakaður um að bera mikla ábyrgð á þeirri sundrungu sem ríkir í landinu. Í stað þess að reyna að fá súnní-araba til liðs við sig hafi hann ávallt hyglað sjítum.

Fjöldi erlendra ofstækis-múslíma úr ýmsum löndum hefur gengið til liðs við íslamistasamtökin ISIS í Írak og Sýrlandi. Einn þeirra, ástralskur borgari, hefur birt á netinu myndir af sér og barnungum sonum sínum í herklæðum og með byssur. Á annarri mynd sést einn sonurinn halda á afhöggnu höfði sýrlensks stjórnarhermanns, litli drengurinn loftar varla höfðinu. Hafa þessar myndir vakið viðbjóð í Ástralíu og víðar um heiminn.

Hamas-maður notar gamlan hatursáróður um gyðinga

Fleiri dæmi eru um ofstæki íslamista og ógeðfelldan málflutning. Aðaltalsmaður Hamas-samtakanna á Gaza, Osama Hamdan, var nýlega í viðtali hjá CNN-sjónvarpsstöðinni. Sýnt var myndskeið úr arabískri sjónvarpstöð þar sem Hamdan fullyrti að allir vissu að gyðingar hefðu það fyrir sið að drepa kristin börn og nota blóðið í ósýrða brauðið sem þeir borða um páskana. Birt var þýðing á ummælunum á ensku.

Fréttamaður CNN spurði Hamdan ítrekað hvort hann stæði við þessa fullyrðingu (sem mun byggjast á hatursáróðri gegn gyðingum á miðöldum í Evrópu), einnig hvort þýðingin væri rétt. Hamdan vék sér ávallt undan að svara.