Ingvar Gunnar Guðnason fæddist 6. mars 1951. Hann lést 19. júlí 2014. Útför hans fór fram 29. júlí 2014.

Góður samstarfsmaður og traustur félagi er fallinn frá langt um aldur fram.

Það var samfélaginu í Skagafirði mikill fengur þegar Ingvar Gunnar Guðnason sálfræðingur flutti hingað til starfa á skólaheimilinu á Egilsá sumarið 1985 og tók sér síðar fasta búsetu í Merkigarði í Lýtingsstaðahreppi þar sem hann ræktaði skóg. Hann tók virkan þátt í ýmsum samfélagslegum verkefnum og lét sér annt um sitt nærsamfélag.

Þegar ellefu sveitarfélög í héraðinu sameinuðust í Sveitarfélagið Skagafjörð 1998 og tóku við rekstri grunnskólanna úr hendi ríkisins réðst Ingvar til skólaskrifstofunnar sem verktaki. Var hann sálfræðingur Fjölskylduþjónustu Skagfirðinga til dauðadags og sinnti málefnum skóla- og félagsþjónustu.

Ingvar var bráðgreindur og vel að sér. Hann var traustur fræðimaður á sínu sviði. Viðhorf hans mótuðust af mannúð og virðingu fyrir fólki. Í grein sem hann skrifaði um kulnun í starfi og varnir gegn henni hélt hann því fram að þeir sem ynnu með fólki notuðu tilfinningaorku í starfi.

Eftir að hafa bent á að þetta nýyrði hans gæti einhverjum þótt nýaldarlegt og játað að ekki hefðu vísindin orðið honum úti um sönnun þess að slík orka yfirleitt sé til víkur hann að eðli slíkra starfa og segir: „...ég á hér við hæfnina til að gefa tilfinningalega af sér, auðsýna öðrum samúð og virðingu og taka þátt í gleði þeirra og sorg.“ Þannig vann Ingvar.

Í fyrirlestri lagði hann áherslu á að mikill munur væri á að vinna með fólk og vinna með fólki.

Ingvar var listagóður teiknari og var lagið að setja saman hnyttnar vísur sem hann flíkaði of lítið. Hann var manna skemmtilegastur í samræðum í kaffistofu. Hann var hraustmenni, vel á sig kominn til líkama og sálar og myndarlegur að vallarsýn, knár í fjallgöngum og ágætur golfleikari. Hann var hófsemdarmaður. Það kom okkur starfsfélögum hans mjög á óvart þegar hann greindist með krabbamein og var allur á örfáum vikum.

Við kveðjum góðan dreng með þakklæti, virðingu og söknuði og vottum hans nánustu okkar dýpstu samúð.

F.h. Sveitarfélagsins Skagafjarðar og samstarfsmanna,

Ásta B. Pálmadóttir,

sveitarstjóri.