Fundur nefndarinnar Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokki, Vigdís Hauksdóttir Framsóknarflokki, Jón Magnússon og Ólafur Elfar Sigurðsson, ritarar fjárlaganefndar, og Oddný Harðardóttir Samfylkingu.
Fundur nefndarinnar Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokki, Vigdís Hauksdóttir Framsóknarflokki, Jón Magnússon og Ólafur Elfar Sigurðsson, ritarar fjárlaganefndar, og Oddný Harðardóttir Samfylkingu. — Morgunblaðið/Þórður
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Upplýsingar frá fulltrúum þriggja ráðuneyta sem komu fyrir fjárlaganefnd í gær gefa tilefni til aukinnar bjartsýni um að markmið um hallalaus fjárlög muni nást í ár.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Upplýsingar frá fulltrúum þriggja ráðuneyta sem komu fyrir fjárlaganefnd í gær gefa tilefni til aukinnar bjartsýni um að markmið um hallalaus fjárlög muni nást í ár. Fulltrúar menntamála-, atvinnuvega- og nýsköpunar- og umhverfis- og auðlindaráðuneytis komu fyrir nefndina og gerðu grein fyrir útgjöldum.

Þetta er mat Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, sem boðar áfram strangt aðhald í ríkisfjármálum. Betri staða ýmissa ríkisstofnana en búist var við gefi ekki tilefni til aukinna útgjalda, né heldur um 46 milljarða tekjuaukning ríkissjóðs á fyrri hluta árs. Var handbært fé frá rekstri þá jákvætt um 15,9 milljarða, eins og komið hefur fram.

„Það verður ráðist í það verkefni að greiða niður skuldir. Við skulum bíða með að ræða hver afgangurinn verður þar til árið er gert upp. En það eru afar jákvæð teikn í fjármálum þjóðarinnar, þegar þessi tekjuaukning kemur fram,“ segir Vigdís.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru lagðar fram upplýsingar á fundi fjárlaganefndar sem bentu til þess að samanlögð framúrkeyrsla átján stofnana sem undir ráðuneytin heyra hafi numið 1.650 milljónum á fyrstu átta mánuðum ársins. Eru þá m.a. taldir með þrír framhaldsskólar.

Skýringarnar greinargóðar

Spurð um þessar tölur segir Vigdís að fulltrúar ráðuneytanna hafi gefið greinargóðar skýringar á því hvers vegna gjöld voru umfram tekjur á fyrri hluta ársins. Það sé að hluta til vegna þess að meiri þungi sé í útgjaldahliðinni á fyrri hluta árs.

Niðurstaðan hafi verið sú að hallinn hjá umræddum stofnunum hafi verið hverfandi. Vegna þessa hafi ekki þurft að kalla til fulltrúa undirstofanana til að skýra útgjöldin.

Nefndin fundar með fjármálaráðuneytinu í dag og fulltrúum innanríkisráðuneytisins, Alþingis og velferðarráðuneytisins 25. ágúst.

Spurð hvort raunhæft sé að 20-30 milljarða afgangur verði af rekstri ríkissjóðs þegar árið allt er upp gert, að frádregnum aukafjárveitingum til annarra málaflokka, þar með talið heilbrigðis- og vegamála, segir Vigdís ótímabært að ræða það nú. Hún segir launaliðinn ekki hafa borið á góma af hálfu fulltrúa ráðuneyta.

Vigdís segir stefnuna þá að þetta verði síðustu fjárlögin þar sem fjáraukalög verði sjálfsagður hlutur. Vísar hún þar til frumvarps sem girða á fyrir framúrkeyrslu.

„Það er stefnt að því að ljúka frumvarpi um opinber fjármál, sem fjármálaráðherra lagði fram á síðasta þingi, fyrir áramót. Fjárlaganefnd hefur unnið í frumvarpinu í sumar, fengið umsagnir og er komin vel á veg með að vinna það. Það verður vonandi lagt fyrir þingið í haust þannig að við getum afgreitt það fyrir áramót og farið að vinna á grundvelli þess á nýju ári,“ segir Vigdís.

Ekki náðist í Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Valgerður Gunnarsdóttir, einn þriggja fulltrúa sjálfstæðismanna í nefndinni, segir skýringar fulltrúa ráðuneytanna sýna að í einhverjum tilfellum sé ekki um framúrkeyrslu að ræða. Það eigi m.a. eftir að taka tillit til sértekna. „Staðan er því betri en hún lítur út fyrir að vera á pappírunum í dag,“ segir Valgerður.