Keppnisfjör! Kassabílarall er þekkt erlendis, t.d. í Bretlandi, en þar er oftar en ekki keppt í brekkum og geta bílarnir náð gríðarlegum hraða að sögn Guðmundar. Hér heima fer kassabílarallið fram á jafnsléttu.
Keppnisfjör! Kassabílarall er þekkt erlendis, t.d. í Bretlandi, en þar er oftar en ekki keppt í brekkum og geta bílarnir náð gríðarlegum hraða að sögn Guðmundar. Hér heima fer kassabílarallið fram á jafnsléttu. — Ljósmynd/Hrólfur Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um helgina fer fram seinni umferð Íslandsmóts Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur í kassabílaralli. Keppendur eru fjögurra ára og eldri en smíði bílsins gjarnan fjölskylduverkefni og liðsfélagar systkini eða frændsystkini.

Um helgina fer fram seinni umferð Íslandsmóts Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur í kassabílaralli. Keppendur eru fjögurra ára og eldri en smíði bílsins gjarnan fjölskylduverkefni og liðsfélagar systkini eða frændsystkini. Það krefst lagni að komast í gegnum brautirnar á sem stystum tíma en aðalatriðið er auðvitað að hafa gaman af.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Næstkomandi sunnudag fer fram seinni umferð Íslandsmótsins í kassabílaralli, en fyrri umferðin fór fram 1. júní síðastliðinn. Mótið er samstarfsverkefni Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur, Reykjavíkurborgar, Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og Skeljungs, en sigurvegararnir verða krýndir 30. ágúst næstkomandi þegar alþjóðlegt rall BÍKR fer fram.

„Við byrjuðum á þessu í fyrra og héldum okkar fyrstu keppni fyrir ári, 18. ágúst, en núna í ár ákváðum við að hafa keppnina tvískipta til að við gætum haft þetta Íslandsmót. Þá eru veitt stig fyrir hverja keppni og þeir sem fá flest stig samanlagt verða Íslandsmeistarar,“ segir Guðmundur Höskuldsson keppnisstjóri.

Keppnin fer fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum á fjórum þar til gerðum brautum og er keppt í fjórum flokkum: 4–7 ára, 8–11 ára, 12–15 ára og 16 ára og eldri. „Það eru bílabrautir fyrir sem við breytum mikið fyrir keppnina. Við erum að reyna að setja brautirnar þannig upp að þetta sé eins og í venjulegu ralli; það eru alls konar þrautir sem þarf að ná í gegnum á tíma. Þetta er mjög spennandi; þú hefur bara takmarkaðan tíma til að klára brautina og koma þér inn á næstu braut.“

Krefst hæfni og útsjónarsemi

Liðin samanstanda af ökumanni, einum eða tveimum keppendum sem ýta bílnum og liðsstjóra, sem þarf að vera orðinn 18 ára gamall. Hann hefur m.a. það hlutverk að reikna út tíma, en liðin þurfa að passa að vera á réttum tíma og fá mínusstig fyrir að vera of fljót eða of sein inn á brautirnar, alveg eins og í hefðbundnu ralli.

Rallið krefst nokkurrar hæfni, að sögn Guðmundar. „Brautin er þröng og ef þú ætlar að ná að keyra á sem mestum hraða í gegnum hana þá verður þú að taka beygjurnar rétt. Og þú þarft að pæla dálítið í því hvernig þú gerir þetta ef þú ætlar að ná sem bestum tíma,“ segir hann. Af þessum sökum, og vegna þess að yngstu keppendurnir eiga e.t.v. erfitt með að ráða fullkomlega við stýrið, fara þeir jafnan hægar yfir.

Langstærsti hluti þátttakenda ekur á heimasmíðuðum bílum og segir Guðmundur rallið oft á tíðum samstarfsverkefni fjölskyldunnar, þar sem systkini og/eða frændsystkini smíða bílinn og keppa saman. Flestar reglurnar sem gilda um bílana fjalla um öryggi.

„Það þarf t.d. að hafa bremsu og það þurfa að vera hlífar yfir dekkjunum þannig að hár og treflar flækist ekki í,“ segir Guðmundur, en reglurnar miða allar að því að koma í veg fyrir að fólk meiðist í keppninni.

Hugmyndina að kassabílarallinu átti Guðmundur, sem er á þeirri skoðun að hefja eigi ökukennslu í grunnskóla, jafnvel á 4–6 ára aldri. „Það er hægt að byrja í kassabílnum og aðeins seinna er kannski hægt að fara í rafmagnsbíla eða eitthvað aðeins öflugra. Að þetta sé bara eins og sund; eitthvað sem þú ert alltaf í á hverju ári,“ segir hann og bendir á að þeir sem komist lengst í rallinu erlendis séu þeir sem byrja ungir að árum.

Skráning í rallkeppnina á sunnudag stendur yfir á kassabilarally.is og lýkur kl. 22 á fimmtudagskvöld.