Útvarp Fréttastöðin BBC World Service á sér marga hlustendur hérlendis.
Útvarp Fréttastöðin BBC World Service á sér marga hlustendur hérlendis.
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Útvarpsútsendingar á BBC World Service, alþjóðaútvarpsstöð breska ríkisútvarpsins BBC, hófust í dag á ný á tíðninni 103,5. Á stöðinni eru sagðar fréttir frá heimsbyggðinni allan sólarhringinn.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Útvarpsútsendingar á BBC World Service, alþjóðaútvarpsstöð breska ríkisútvarpsins BBC, hófust í dag á ný á tíðninni 103,5. Á stöðinni eru sagðar fréttir frá heimsbyggðinni allan sólarhringinn. Vodafone á Íslandi hefur gert samning við breska ríkisútvarpið um umsjón með dreifingu BBC World Service á höfuðborgarsvæðinu og IPTV-sjónvarpsdreifikerfi félagsins um land allt.

„Það er ánægjulegt að geta hafið útsendingar BBC World Service að nýju hér á Íslandi. Fréttastöðin á sér marga fasta hlustendur meðal Íslendinga, ekki síst í ljósi vandaðrar þáttagerðar og fréttaskýringa frá öllum heimshornum, sem skýrir mikil viðbrögð þegar útsendingum var hætt fyrr í sumar,“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, í fréttatilkynningu.

Að sögn Þorleifs Jónassonar, forstöðumanns Póst- og fjarskiptastofnunar, barst fjöldi fyrirspurna frá hlustendum til fyrirtækisins þegar útsendingum var hætt í vor.

365 hættu útsendingunni í vor en fjölmiðlafyrirtækið hafði útvarpað stöðinni frá árinu 2005 á tíðninni 94,3. Á sama tíma sögðu 365 miðlar einnig upp útvarpsleyfi og tíðni á Útvarpi Latabæ í vor. Að sögn Ágústs Héðinssonar, forstöðumanns útvarpssviðs 365 miðla, hefur ekki verið tekin ákvörðun um að hefja útsendingar á annarri sambærilegri barnastöð.

„Allt kostar þetta peninga og við lifum á auglýsingatekjum. Ekki er leyfilegt að beina auglýsingum að börnum. Sama var með BBC, við fengum engar tekjur og því voru leyfi ekki endurnýjuð,“ sagði Ágúst.