Bergrós Jónsdóttir fæddist í Ytra-Kálfsskinni á Árskógsströnd 2.2. 1921. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík 5. ágúst 2014.

Foreldrar hennar voru Rósa Elísabet Stefánsdóttir, f. 19.7. 1888, d. 1.2. 1929, og Jón Einarsson, f. 12.10. 1892, d. 21.11. 1983, bændur í Kálfsskinni. Alsystkini Bergrósar voru: Brynhildur, f. 24.6. 1916, d. 6.7. 2008, Gunnhildur, f. 24.6. 1916, d. 17.10. 2001, Helga, tvíburasystir Bergrósar, f. 2.2. 1921, Einar, f. 22.11. 1922, d. 27.10. 2010, Þórey, f. 30.8. 1927, d. 21.1. 2008. Hálfbróðir Bergrósar er Sveinn Elías, f. 13.1. 1932, sonur Jóns og seinni konu hans, Jóhönnu Margrétar Sveinbjarnardóttur, f. 4.12. 1893, d. 16.12. 1971.

Bergrós giftist ekki en eignaðist tvö börn. 1) Guðrún Aðalsteinsdóttir, f. 6.10. 1949, d. 16.3. 1993. Hún var kennari, bjó í Danmörku og eignaðist soninn Jesper Andersen með sambýlismanni sínum Erling Andersen, f. 12.2. 1953. Þau slitu samvistum. Guðrún giftist seinna Villiam Berg Vesterdal, kennara, f. 14.3. 1945, hann býr í Danmörku. 2) Brynjar Geir Aðalsteinsson, f. 1.6. 1960, d. 28.1. 1962.

Bergrós ólst upp í Kálfsskinni og vann sveitastörfin þar til hún fór að vinna annars staðar. Hún fór í Húsmæðraskólann að Laugalandi í Eyjafirði einn vetur, en fór ekki í annað framhaldsnám. Á síldarárunum saltaði hún síld bæði á Siglufirði og á Raufarhöfn og náði mikilli leikni og flýti við söltunina. Hún vann við Heyrnleysingjaskólann í fjögur ár til 1946 og næstu tvö ár á Hótel Geysi í Haukadal. Eftir það var hennar aðalstarf saumaskapur. Hún vann hjá saumastofunni Magna í Hveragerði og bjó þá hjá Brynhildi systur sinni og hennar fjölskyldu. Þegar saumastofan flutti til Hafnarfjarðar flutti Bergrós einnig og hefur átt heima að Sléttuhrauni 19 síðan 1973 og hélt áfram að sauma fyrir Magna meðan kraftar entust. Þar voru aðallega saumuð tjöld, svefnpokar og fatnaður. Bergrós á nokkrar sjúkrahússlegur að baki, en hefur annars haldið heimili sjálf þar til hún fékk vistun á Eir fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Útför Bergrósar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 13. ágúst 2014, og hefst kl. 13.

„Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.“ Þannig lauk Davíð skáld Stefánsson kvæði sínu Konan sem kyndir ofninn minn. Þessi orð komu upp í hugann er ég nú á kveðjustund vil minnast með nokkrum fátæklegum orðum Bergrósar, minnar elskulegu systur.

Með lífshlaupi sínu finnst mér hún hafa fyrst og fremst lagt sig fram um að þjónusta aðra, vinna öðrum sem mest gagn með trúmennsku, hjálpsemi og þolgæði af hvaða tagi sem verkin voru og vinna þurfti.

Hún fæddist snemma á síðustu öld, þegar aðstæður voru mörgum erfiðar og af litlu að taka fyrir barnmargar fjölskyldur, sem ekkert áttu nema tíma, vonina og viljann til að sigra erfiðleikana. Líklega hefur engin kynslóð á landi voru lifað aðra eins umbrota- og framfaratíma og þeir er nú kveðja á tíræðisaldri.

Unga fólkinu sem elst upp við allsnægtir og ótrúlega möguleika í tækni og framförum á öllum sviðum mannlífsins í dag væri hollt að líta til baka og læra af þeim fórnum sem færa þurfti til að ná þeim árangri. Beggó, eins og flestir vinir hennar og kunningjar kölluðu hana oftast, hefur ekki borist mikið á um dagana né leitað eftir mannvirðingum til að upphefja sjálfa sig. Skólaganga hennar var af skornum skammti þótt hún hefði vissulega vilja og gáfur til að mennta sig. Aðstæður hennar í æsku voru þær að stopult farskólanám var látið nægja á barnmörgum heimilum og brauðstritið var menntun ofar í forgangsröðun.

Hún nýtti vel þann eina vetur sem hún var í húsmæðraskóla, sem var hennar veganesti ásamt dugnaði og handlagni til að ná góðum árangri á vinnumarkaði. Mestur hluti starfsævi hennar fólst í að þjóna öðrum og var framleiðsla og hönnun á margs konar útivistarvörum veigamikil í starfi hennar. Hún byrjaði snemma í sinni heimasveit að starfa með ungmennafélaginu, sem var viss þroskaskóli unga fólksins, því ekki var margt í boði sem reyndist þó heilladrjúgt.

Fljótlega á lífsleiðinni lærði hún sparsemi og nægjusemi og bað ekki aðra um aðstoð. Stolt hennar nægði fyrir hana til að sjá um sig og vera heldur veitandi en þiggjandi. Hún hafði létta lund og veitti samferðafólki sínu ánægju með sögum og spaugsemi. Hún hafði ánægju af lestri góðra bóka og naut þess að ferðast og fræðast um landið sitt, þótt það væri í minni mæli en hún óskaði. Hennar stóru áföll í lífinu voru missir barna sinna beggja og getur hver og einn ímyndað sér hve þungbært það er að búa við það um langa ævi. Það sýnir styrk hennar, vilja og ótrúlegt æðruleysi. Með þessum orðum vil ég færa þeim hjónum Önnu og Kristjáni alúðarþökk fyrir vináttu og hjálpsemi sem þau sýndu Beggó um áratugaskeið. Ég lýk þessum fátæklegu orðum með ljóði eftir Davíð Stefánsson:

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þótt degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson)

Sveinn Jónsson.

Í dag kveðjum við Beggó föðursystur okkar. Það var orðin hefð að færa henni aðalbláber úr berjamónum hennar í Kálfsskinni á haustin.

Alltaf var Beggó kát og glöð þegar við komum í heimsókn í Hafnarfjörðinn og ánægð að fá heimsókn og fréttir að norðan. Hugur hennar leitaði ætíð á æskuslóðirnar og henni fannst gaman að rifja upp gamla daga.

Hún var minnug og það var gaman að heyra hana segja sögur af þeim systkinum þegar þau voru að alast upp. Beggó vildi allt fyrir alla gera en vildi helst ekkert þiggja, sagði alltaf að sig vantaði ekkert.

Að leiðarlokum látum við hér fylgja erindi úr ljóði eftir Jónas Hallgrímsson.

Sáran lét Guð mig

söknuð reyna!

Verði hans vísdóms

vilji á mér!

Syrtir í heimi,

sorg býr á jörðu,

Ljós á himni,

lifir þar mín von.

(JH)

Við kveðjum góða frænku og þökkum henni samfylgdina og vitum að nú er hún komin til barnanna sinna eins og hún hafði svo lengi óskað.

Við færum Jesper, dóttursyni Beggó, og fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Margrét og Erla

frá Kálfsskinni.