[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Þessi opnu fangelsi eru mikið framfaraskref og góð þróun í fangelsismálum.

Sviðsljós

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Þessi opnu fangelsi eru mikið framfaraskref og góð þróun í fangelsismálum. Þetta er leið til betrunar fanganna og við búum þá undir að koma út í samfélagið á nýjan leik,“ segir Ari Thorarensen, varðstjóri fangelsisins á Sogni. Hann hefur starfað sem fangavörður í 28 ár.

Fangelsið á Sogni er annað af tveimur opnum fangelsum hér á landi, hitt er á Kvíabryggju. Árið 2012 var fangelsið á Sogni formlega tekið í notkun og leysti af hólmi fangelsið á Bitru sem hóf starfsemi sína árið 2010.

Opið fangelsi felst í því að engar girðingar eru til staðar og fangar ekki læstir inni í klefum sínum yfir daginn. Byggingunni er þó læst yfir nóttina. Fangarnir hafa m.a. tækifæri til að vinna og stunda nám en á staðnum er fullbúin kennslustofa.

Tækifæri fyrir fanga

Ari segir staðinn mjög góðan enda sé náttúran ákaflega falleg í kring. Hins vegar bendir hann á að ekki séu nægjanlega mörg störf í boði fyrir fangana þar. „Skólinn gerir mikið fyrir fangana en við þurfum fleiri störf.“

Á Sogni er hænsnahald, silungaeldi, gróðurhús og matjurtaræktun. Öll vinnan í kringum bústörfin er alfarið á herðum fanganna. Auk þess sinna þeir öllum daglegum störfum allt frá eldamennsku til þrifa á húsnæðinu. Þá þvo þeir að sjálfsögðu fötin sín sjálfir. „Margir kunna ekki á þvottavél þegar þeir koma hingað,“ sagði Ari.

Hver fangi sér um afmarkaðan verkþátt. Einn sér um hænurnar, annar um fiskeldið o.s.frv.

Sá sem eldar sér einnig um innkaupin í búðinni fyrir tiltekna fjárhæð. Hann þarf því að passa upp á að eyða ekki um efni fram.

Áhersla á snyrtimennsku

Hænurnar eru um tuttugu talsins og tveir skrautlegir landsnámshanar. Þær kunna víst vel að meta rúsínur sem gaukað er að þeim þegar þær fá að vappa frjálsar um hlaðið. Ekki er fyrirhugað að bæta við dýrum eða auka ræktun en úr því gæti þó orðið, segir Ari.

Þegar Morgunblaðsmenn bar að garði í gær var verið að sýsla við eitt og annað í sólinni undir heiðskírum himinn í Ölfusinu. „Mikil áhersla er lögð á að hafa allt snyrtilegt á staðnum og sjá fangarnir allir alfarið til þess,“ sagði Ari. Verið var að slá í kringum bæinn með rafmagnsorfi, þvo bíla og mála húsþökin svo fátt eitt sé nefnt.

Búið var að heyja á túnunum við bæinn. Fangarnir tóku víst ekki þátt í því heldur fékk bóndinn á næsta bæ að heyja.

Fyrir utan íbúðarhúsið eru leiktæki. Frá föstudegi til sunnudags getur fjölskylda og vinir heimsótt fangana, börn eru einnig í þeim hópi.

Spurður hvort fangelsið verði stækkað segist Ari ekki búast við því að þessi eining verið stækkuð. Um 20 fangar eru þar hverju sinni. „Ekki er æskilegt að opið fangelsi sé mikið stærri eining en þetta.“

Til að komast í opið fangelsi þurfa fangar að sýna góða og ábyrga hegðun og fylgja settum reglum. Fangarnir geta farið um landareignina að vild. Þá hafa þeir fullan aðgang að símum og tölvum yfir daginn en ber þó að skila þeim yfir nóttina. „Ef þessar reglur eru ekki virtar gæti þurft að vísa þeim aftur á Litla-Hraun,“ sagði Ari.

Sækja vinnu í sveitina

Dæmi er um að fangar sæki vinnu út frá fangelsinu „þeir þurfa þó að uppfylla öll skilyrði til þess“.

Allur gangur er á hversu lengi fangar eru í opnu fangelsi, allt frá nokkrum mánuðum til nokkurra ára. Eftir að vist á Sogni lýkur fara flestir fangar á Vernd, áfangaheimili fyrir fanga, og ljúka afplánun þar. Vernd er staðsett í Reykjavík. Þar sækja þeir vinnu. Einnig ljúka sumir fangar afplánun undir rafrænu eftirliti. Þeir hafa þar til gerðan búnað á sér.

Silungaeldi við bæinn

Silungaeldi er í myndarlegri tjörn sem er í röltfæri við bæinn Sogn. Fyrir nokkrum árum var bæjarlækurinn stíflaður til að slökkviliðið gæti náð í nægjanlegt vatn ef eldsvoði yrði á staðnum, til að uppfylla brunavarnir. Ekki hefur komið til þess að slökkviliðið hafi þurft að ná í vatn í tjörnina.

Í þessa tjörn þótti því tilvalið að sleppa silungaseiðum. Þar svamla því nú um 300 silungar í tjörninni. Einn fangi sér um að fóðra þá. Silungurinn er reyktur og bragðast víst mjög vel.